UMSÖGN LEB UM FJÁRLAGAFRUMVARP 2023

Landssamband eldri borgara (LEB) hefur sent Alþingi umsögn um fjárlagafrumvarp 2023, sem lagt var fram við upphaf þings um miðjan september. Skv. frumvarpinu eiga upphæðir almannatrygginga að hækka um 6% á næsta ári, og er sú hækkun útskýrð þannig að 4,9% séu vegna áætlaðra verðlagshækkana og 0,5% vegna áætlaðrar kaupmáttaraukningar 2023, en 0,6% séu uppfærsla vegna þess að áorðnar hækkanir á yfirstandandi ári muni ekki duga til að halda í við verðbólguna.

Varðandi síðasta liðinn bendir LEB á það í umsögninni að nú þegar liggi það fyrir að verðbólgan milli 2021 og 2022 muni reynast 8,1%, eða 0,6% meira en þau 7,5% sem gert sé ráð fyrir í forsendum frumvarpsins. Þegar af þeirri ástæðu sé hækkun næsta árs vanáætluð sem því nemur. Þar fyrir utan ríki mikil óvissa um launaþróun og efnahagsmál á næsta ári, og t.d. spái Seðlabankinn töluvert meiri verðbólgu milli áranna 2022 og 2023 en frumvarpið byggir á, eða 6,7% samanborið við 4,9%.

Rakið er að með 6% hækkun frumvarpsins myndi ellilífeyrir almannatrygginga hækka í 303.800 kr./mán. eða um 17.200 kr. frá því sem hann er nú (286.619 kr.). En ef ellilífeyririnn hefði fylgt neysluvísitölunni síðan 2018 væri hann nú 300.700 kr. og ef hann hefði hækkað eins og launavísitalan á sama tíma væri hann nú 311.500 kr./mán. eða 24.900 kr. hærri en hann er í raun. Ljóst sé því að ellilífeyririnn myndi þurfa að hækka um tugi þúsunda umfram það sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir ef hann ætti að halda í við þróun verðlags og launa frá því fyrir covid.

Að lokum krefst LEB þess í umsögninni að forsendur frumvarpsins verði endurskoðaðar þannig að tryggt verði að ellilífeyrir hækki á næsta ári að lágmarki til samræmis við vísitölu neysluverðs, sbr. 69. grein laga um almannatryggingar. Jafnframt er farið fram á að upphæðir ellilífeyrisins verði endurskoðaðar eigi síðar en 1. júlí á næsta ári, þegar skýrari línur liggja fyrir um þróun verðlags og launa.

Sjá umsögnina nánar á eftirfarandi slóð 153-21.pdf (althingi.is