FEB-ferðir í júní og júli – einstaka laus sæti

Nú fer hver að verða síðastur að tryggja sér sæti í þær FEB-ferðir sem farnar verða nú seinni hlutann í júní og í júlímánuði.

Snæfellsnes og út í Flatey (27. til 28. júní ) – eitt tveggjamanna herbergi laust = 2 farþegar
Ekið er frá Stangarhyl 4 í Reykjavík klukkan 9:00 sem leið liggur upp í Borgarnes þar sem stoppað verður stutta stund. Síðan liggur leiðin að Ytri-Tungu á Snæfellsnesi, en þar má oft sjá seli. Þá er farið að Arnarstapa og gengið þar um og snædd hádegishressing. Ekið fyrir Jökul og að Hellissandi, áfram um Ólafsvík og Grundarfjörð til Stykkishólms og endað í kvöldverði og gistingu á Hótel Stykkishólmi. Daginn eftir er svo siglt með ferjunni Baldri út i Flatey, þar verður gengið um þorpið með kunnugum og kíkt á fuglalífið. Siglt til baka með ferjunni um hádegisbil. Hádegishressing og skoðunarferð í Stykkishólmi áður en haldið er suður til Reykjavíkur.
Leiðsögumaður: Kári Jónasson
Verð: 75.000 kr. á mann m.v. gistingu í 2 manna herbergi.

Fjallabaksleið nyrðri (4. júlí) – nokkur sæti laus
Enn á ný efnir FEB til dagsferðar um Fjallabaksleið nyrðri með brottför klukkan 8:30 þann 4. júlí úr Stangarhyl 4. Eins og áður er fyrsti viðkomustaður í Þjórsárdal. Þaðan verður ekið rakleiðis inn í Landmannalaugar, þar sem gestir taka upp nesti sitt og skoða sig um. Þá verður haldið um Jökuldali og Eldgjá í Hólaskjól. Síðan verður ekið niður Skaftártungu og um Vík . Kvöldmatur, sem er innifalinn í verði, bíður ferðalanga áður en haldið verður til Reykjavíkur. Um nokkuð langa ferð er að ræða og ekið um hálendisvegi yfir ár og læki. Þetta er ekki mikil gönguferð en þátttakendur þurfa að vera vel búnir fyrir hálendisferð.
Leiðsögumaður: Kári Jónasson
Verð: 24.000 kr.

Njáluslóðir Suðurland (16. júlí) – laus sæti
Dagsferð þar sem Guðni Ágústsson leiðir okkur á slóðir Hallgerðar Langbrókar og Njálsbrennu. Fyrsti viðkomustaður er Selfoss og svo næst Laugardælakirkja austan við Selfoss. Þar verður sagt frá Bobby Fischer. Þaðan verður haldið að Odda á Rangárvöllum, áður en komið er í Hótel Fljótshlíð í Smáratúni, þar sem litast verður um og snædd kjötsúpa. Ekið að Hlíðarenda og yfir í Gunnarshólma þar sem Gunnar sneri aftur. Þá liggur leiðin suður að Bergþórshvoli þaðan á Hvolsvöll í kaffi og pönnsur áður en haldið verður til Reykjavíkur.
Fararstjóri: Guðni Ágústsson
Verð: 19.000 kr.

Bókanir fara fram á skrifstofu FEB, í gegnum síma 588 2111 eða með því að senda póst á netfangið feb@feb.is