V er stafur júnímánaðar hjá FEB-ferðum – ætlar þú ekki að ferðast með okkur?

Vestmannaeyjar – dagsferð
Vestfirðir – þriggja daga ferð – Uppseld
Varsjá – þriggja nátta ferð
Vesturland, Snæfellsnes og út í Flatey – tveggja daga ferð.

Vestmannaeyjar (4. júní ) – LAUS  SÆTI
Enn eru nokkur sæti laus í hina árlegu FEB-ferð til Vestmannaeyja þar sem Kári og Gerður fræða hópinn um gersemar Eyjarinnar af sinni einskæru snilld. Brottför er kl. 8:00 frá Stangarhyl 4, þriðjudaginn 4. júní. Ekið er sem leið liggur austur fyrir Fjall og í Landeyjahöfn, þar sem Herjólfur bíður okkar, og ferjar bæði rútu og hópinn yfir til Eyja. Þar byrjum við á að aka út á Eiðið áður en við fáum hádegisverð á Tanganum. Maturinn er innifalinn í verði ferðar. Eftir hádegi liggur leiðin m.a. inn í Herjólfsdal út á Stórhöfða, um „nýja hraunið“ og Skansinn, áður en við förum í Eldheima og kynnum okkur afleiðingar Heimaeyjargossins í janúar 1973. Þaðan fer svo hópurinn aftur um borð í Herjólf og kemur til Reykjavíkur um áttaleitið ef allar áætlanir standast.
Leiðsögumenn: Kári Jónasson og Gerður G. Sigurðardóttir.
Verð: 22.000 kr. (2.500 krónur bætast við ef farþegi er utanfélagsmaður).
Þú verður ekki svikin af þessari ferð.
Bókanir til Vestmannaeyja fara fram á skrifstofu FEB, í gegnum síma 588 2111 eða með því að senda póst á netfangið feb@feb.is

Vestfirðir (7. til 9. Júní)UPPSELD!
Ekið til Ísafjarðar og gist í tvær nætur á Hótel Ísafirði. Daginn eftir er siglt til Hesteyrar og litast þar um áður en haldið er á ný til Ísafjarðar og sest að snæðingi i Tjöruhúsinu um kvöldið. Daginn eftir er svo haldið suður á leið. Fyrsti viðkomustaður er Flateyri, síðan Þingeyri og svo Dynjandi og að lokum stoppað í Flókalundi í hádegishressingu áður en ekið er suður til Reykjavíkur.
Leiðsögumaður: Kári Jónasson

Varsjá (21. til 24. júní)ÖRFÁ  SÆTI  LAUS
FEB-ferðir í samvinnu við Betri ferðir bjóða upp á einstaklega fróðlega og spennandi ferð til Varsjár. Vinsældir Varsjár hafa aukist enda borgin glæsileg, hreinleg, með áhugaverða sögu, ódýrar verslanir, söfn og merkilegar byggingar og mörg afbragðs veitingahús á alþjóðlegan mælikvarða.
Meðal annars verður farin áhugaverð gönguferð um gamla miðbæinn og skoðunarferð með rútu vítt og breitt um borgina og það markverðasta skoðað. Einnig verður farið í Lazienki garðinn á útitónleika þar sem spiluð verða verk eftir Chopin, þjóðartónskáld Pólverja og margt annað áhugavert gert.
Fararstjóri: Lilja Hilmarsdóttir hjá Betri ferðum
Verð: 169.000 kr. á mann í tvíbýli en 193.000 kr. fyrir einbýli
Bókanir til Varsjár fara fram í gegnum bókunarsíðuna klik.is eða með því að ýta HÉR .

Vesturland – Snæfellsnes og út í Flatey (27. til 28. júní )EINUNGIS  TVÖ  TVEGGJA  MANNA  HERBERGI  LAUS!
Ekið frá Stangarhyl í Reykjavík klukkan 9 sem leið liggur upp í Borgarnes þar sem verður stutt viðdvöl. Síðan liggur leiðin að Ytri- Tungu á Snæfellsnesi, en þar má oft sjá seli. Farið að Arnarstapa og gengið þar um. Hádegishressing. Ekið fyrir Jökul og að Hellissandi, áfram um Ólafsvík og Grundarfjörð til Stykkishólms, þar sem gist verður á Hótel Stykkishólmi og borðað. Daginn eftir er svo siglt með ferjunni Baldri út i Flatey, þar verður gengið um þorpið með kunnugum og kíkt á fuglalífið. Siglt til baka með ferjunni um hádegisbil. Hádegishressing og skoðunarferð í Stykkishólmi áður en haldið er suður til Reykjavíkur.
Leiðsögumaður: Kári Jónasson
Verð: 75.000 kr. á mann m.v. gistingu í 2 manna herbergi en 90.700 kr. ef gist er í einbýli (5.000 kr. bætast við ef farþegi er utanfélagsmaður).
Bókanir á Snæfellsnesið og út í Flatey fara fram á skrifstofu FEB, í gegnum síma 588 2111 eða með því að senda póst á netfangið feb@feb.is