Að rukka eldri borgara í sund er stórt lýðheilsumál

Frétt á ruv.is 30. júní 2024 kl. 19:00, uppfært 1. júlí 2024 kl. 01:51. Linda H Blöndal Hrafnkelsdóttir

Að taka gjald af eldri borgurum fyrir sundferðir er stórt lýðheilsumál, segir Ingibjörg Sverrisdóttir, fulltrúi Félags eldri borgara (FEB) í Öldungaráði Reykjavíkurborgar og fyrrverandi formaður FEB.

Eldri borgarar þurfa að borga í laugarnar þegar gjaldskrá Reykjavíkurborgar verður breytt í ágúst. Verður boðið upp árskort fyrir eldri borgara sem mun kosta 4000 krónur.

Ingibjörg Sverrisdóttir situr fyrir hönd Félags eldri borgara í Öldungaráði Reykjavíkurborgar og gagnrýnir gjaldtöku:

„Það er mjög mikilvægt að eldri borgarar hafi þann möguleika að stunda þessa líkamsrækt. Hún hefur verið gjaldfrí og á meðan hún er það er það hvati til að stunda þessa líkamsrækt,“ segir Ingibjörg.

Mikilvægi sundsins er víðtækt

„Þetta er líka mjög félagslegt. Fólk er að fara í sundlaugarnar til þess að hitta félagana. Þetta er einnig samfélagslega hagkvæmt því þetta seinkar allri öldrun.“

Ingibjörg segir að gjaldtaka geti verið fjárhagsleg byrði fyrir suma og bendir á að eldri borgarar hafi í mörg ár ekki fengið kjarabætur en samt verði tekin upp gjaldtaka fyrir eina mikilvægustu virkni þessa hóps.

Heimild sjá HÉR