Mikilvægt að þekkja lífeyrisréttindi

Frétt eftir Guðna Einarsson (gudni@mbl.is) sem birtist í Morgunblaðinu 8. september 2022. Í greininni er rætt við Ingibjörgu H. Sverrisdóttur formann FEB.

Tilgreind séreign getur orðið að litlu sé ekki rétt að farið Huga þarf að skattaþrepi og skerðingum á greiðslum frá TR Vafamál að það borgi sig að vinna lengur en til 67 ára aldurs vegna skerðinga

Fólk þarf að huga vel að réttindum sínum og læra sem best á lífeyris- og tryggingakerfið löngu áður en það fer á lífeyri, segir Ingibjörg H. Sverrisdótir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.

Í aðsendri grein eftir Ólaf Ísleifsson, hagfræðing og fyrrverandi alþingismann, í Morgunblaðinu á þriðjudag kemur fram að leysi maður út tilgreinda séreign greiði hann af hverjum 100 krónum 38 krónur í tekjuskatt. Njóti hann greiðslna frá TR (Tryggingastofnun ríkisins)skerðast þær svo að hann sér á eftir 83 krónum af hverjum 100 sem hann fær úr tilgreindu séreigninni. Ef viðkomandi er ekki farinn að fá lífeyrisgreiðslur skerðast að sjálfsögðu ekki greiðslur frá TR.

ASÍ og SA sömdu um það í janúar 2016 að mótframlag launagreiðanda í lífeyrissjóði á almennum markaði skyldi hækka í þrepum um 3,5%. Launþegi greiðir 4% og launagreiðandi 8% í samtryggingu lífeyrissjóða. Svo bættust við þessi 3,5% frá launagreiðanda. Sjóðfélagar geta valið hvort þeir setja þetta viðbótarframlag í samtryggingardeild lífeyrissjóðs síns og auka þannig tryggingaréttindi sín eða verja því að hluta eða öllu leyti í tilgreinda séreign. Hana má taka út frá 62 ára aldri. Við andlát sjóðfélaga rennur hún til eftirlifandi maka og barna líkt og annar séreignarsparnaður.

Ingibjörg bendir á að láti fólk 3,5% viðbótina í samtryggingarsjóð lífeyrissjóðs njóti það ávaxta af 15,5% greiðslu til æviloka í formi hærri lífeyrisgreiðslna en ef það setur þessa viðbót í tilgreinda séreign.

Séu greidd samtals 12% í samtryggingarsjóðinn í 40 ár er réttindaávinnslan 1,4 sem þýðir að viðkomandi á rétt á að fá 56% af meðallaunum úr lífeyrissjóði við starfslok 67 ára. Ef greidd eru 15,5% í samtryggingarsjóð í 40 ár er réttinda-ávinnslan 1,8 sem þýðir 72% af meðallaunum úr lífeyrissjóðnum.

Velji fólk að setja þessi 3,5% í tilgreinda séreign þarf það að huga að ávöxtun fjárins, að sögn Ingibjargar. Hægt er að taka tilgreindu séreignina út frá 62 ára aldri. Ingibjörg bendir á að sé viðkomandi enn á vinnumarkaði og ofarlega í miðþrepi tekjuskattskerfisins geti útgreiðsla tilgreindu séreignarinnar valdið því að hún lendi í hæsta skattþrepi.

Hún bendir á að þeir sem ekki hreinsa tilgreindu séreignina upp, áður en þeir hefja töku lífeyris, geti lent í því að greiðslur vegna tilgreindrar séreignar skerði greiðslur frá TR auk þess að vera mikið skattlagðar.

Mikilvægt að kynna sér málin
„Það er vafamál vegna skerðinga að það borgi sig að vinna lengur en til 67 ára, það er heila málið. Þetta ætti fólk að kynna sér vel,“ segir Ingibjörg. Hún segir að miðað við sína þekkingu og reynslu sem eldri borgari með blandaðar tekjur frá lífeyrissjóði og TR myndi hún ekki velja tilgreinda séreign heldur setja öll 15,5% í samtryggingarsjóð.

„Með því væri ég búin að auka réttindi mín hjá lífeyrissjóðnum og tryggja mig til æviloka með hærri greiðslur en ef það hefðu verið greidd 12% af laununum mínum í lífeyrissjóðinn. Eins er maður betur settur með hærri greiðslu í lífeyrissjóð ef maður verður öryrki áður en taka lífeyris hefst.“