Málum þriggja liðsmanna Gráa hersins vísað til Mannréttindadómstóls Evrópu

Ákveðið hefur verið að áfrýja dómi Hæstaréttar Íslands frá 2. nóvember 2022 í málum þriggja liðsmanna Gráa hersins til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í Strasbourg og hafa málin þegar verið send dómstólnum. Með því er gerð úrslitatilraun til að fá það viðurkennt að núgildandi skerðingarreglur almannatryggingarlaga, með 45 – 56,9% skerðingarhlutföllum og mismunandi frítekjumörkum eftir uppruna tekna, séu úr hófi og standist hvorki íslensku stjórnarskrána né Mannréttindasáttmála Evrópu.

Mál þremenninganna gegn íslenska ríkinu snerust ekki um fjárkröfur þeim til handa. Tilgangurinn var að freista þess að ná fram niðurstöðu, sem myndi neyða ríkisvaldið til að breyta regluverki almannatrygginga í það horf að það samræmdist grundvallarreglum réttarríkisins. En með dómnum hafnaði Hæstiréttur öllum rökum kærendanna og gaf ríkinu grænt ljós á gildandi skerðingarregluverk.

Af hálfu ríkisins var því haldið fram að úrlausnarefni réttarins ætti að vera það, hvort lagabreytingar sem tóku gildi 2017 hefðu verið kærendum í hag eður ei. Spurningin sem kærendurnir leituðu svara Hæstiréttar við var hinsvegar önnur, þ.e. hvort kerfið svo breytt stæðist grundvallarreglur réttaríkisins, alveg óháð því hvernig það hafði verið áður og hverjar síðustu breytingar á því voru.

Vonast hafði verið til að dómur Hæstaréttar myndi gefa vísbendingar um viðmið og skilyrði, sem regluverk almannatrygginga verði að uppfylla með tilliti til jafnræðis og meðalhófs, en þær vonir brugðust. Niðurstaða réttarins er einfaldlega sú, að við setningu gildandi regluverks hafi löggjafinn ekki „farið út fyrir það svigrúm sem hann hefur í krafti fjárstjórnarvalds síns til að skipuleggja fyrirkomulag framfærsluaðstoðar (sic)...“

Rétturinn viðurkennir sem sagt að umræddu svigrúmi séu einhver takmörk sett, en lætur þó ógert að upplýsa hvar þau mörk liggja og veitir því lítil sem engin svör við því sem fyrir hann var lagt.

Þremenningarnir telja sig því ekki eiga annan kost en að vísa málinu til MDE og gera sér góðar vonir um að dómstóllinn taki málið fyrir. MDE reynir að ljúka málum innan þriggja ára eftir að þau berast, en algengt er að ferlið taki um tvö ár.

Reykjavík 1. mars 2023
Málsóknarsjóður Gráa hersins

Tengiliður: Þorbjörn Guðmundsson, form. Málsóknarsjóðs Gráa hersins, sími 896-6848

 

Ýmsar upplýsingar:
Kærendur í málunum þremur eru eftirtalin:

Wilhelm WG Wessman, kt.: 021042-7819
Ingibjörg Sverrisdóttir, kt.: 240347-2029
Sigríður J Guðmundsdóttir, kt.: 191042-2989

Lögmennirnir Daniel Isebarn Ágústsson og Flóki Ásgeirsson hjá Magna lögmönnum hafa flutt mál þremenningana og fylgja því eftir til Strasbourg.
Málsóknarsjóður Gráa hersins er fjárhagslegur bakhjarl málarekstursins og var stofnaður til þess. Fjárframlög til sjóðsins hafa komið frá einstaklingum, félögum og samtökum aldraðra og stéttarfélögum.

Dómur Hæstaréttar í máli Ingibjargar:
https://www.haestirettur.is/domar/_domur/?id=be06b293-5a8f-4e6b-95bf-34467d803d03

Um Mannréttindadómstólinn:
https://www.echr.coe.int/Documents/50Questions_ISL.pdf