Íslendingasögur – nýtt námskeið hefst 15. janúar 2021 – skráning er hafin.

Nýtt fornsagnanámskeið hefst föstudaginn 15. janúar næstkomandi og  mun standa í 10 vikur eða fram til 19. mars 2021. Stefnt er að því að kenna í tveimur hópum, fyrir og eftir hádegi, nánar tiltekið kl. 10–12 og 12:30–14:30 alla föstudaga.

Að þessu sinni verða teknar fyrir tvær Íslendingasögur: Bárðar saga Snæfellsáss og Þórðar saga hreðu.  Báðar sögurnar eru með yngstu Íslendingasögum, frá því snemma á 14. öld. Þær eru ýkjukenndar og bráðskemmtilegar á köflum og greina frá sterkum tilfinningum, ástarkrafti og svikum í bland við hreysti og hetjulund. Þetta eru stuttar sögur, um 60 síður hvor og leyna á sér.

Enn ríkir óvissa um hvernig COVID staðan verður í janúar en vonandi geta þeir sem það vilja, mætt í Stangarhylinn en aðrir fylgst með í gegnum fjarvinnsluforritið ZOOM. Ef staðan batnar ekkert frá því sem hún er í dag munum við halda áfram að halda námskeiðið eingöngu í gegnum ZOOM  en vonum innilega að aðstæður leyfi það fyrrnefnda.

Kennari: Baldur Hafstað
Verð kr. 19.000

Skráning fer fram á skrifstofu FEB, í gegnum síma 588 2111 eða með því að senda okkur póst á netfangið feb@feb.isNauðsynlegt er að láta vita um þátttöku.