Betur má ef duga skal í baráttunni fyrir bættum lífsgæðum

Eitt sinn þótti sjálfsagt að þeir, sem fyrir aldurs sakir, ljúka löngu ævistarfi, ættu að setjast í helgan stein og láta aðra, sér yngri, skammta sér áhrif og lífsgæði. Þetta var almennt viðhorf árið 1986, þegar Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) var stofnað. En nú dettur engum slík firra í hug. Svo er m.a. FEB fyrir að þakka sem hefur vaxið og þroskast í 38 ár. Nú eru félagsmenn FEB tæplega 16 þúsund. Það er rúmlega þriðjungur allra eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu.

Þessi fjöldi félagsmanna minnir á samtakamáttinn sem við eigum hiklaust að beita í baráttunni fyrir bættum og lífsgæðum eldra fólks. Að vísu er kjörum manna og lífsgæðum misskipt. Það á einnig við um þá sem komnir eru af léttasta skeiði. En þau málefni sem nú vega þyngst eru kjaramál, húsnæðismál og þjónustuframboð fyrir eldra fólk.

Draga þarf úr tekjuskerðingum
Draga þarf úr tekjuskerðingum þeirra sem fá ellilífeyri almannatryggingar frá Tryggingastofnun. Þá þarf að hækka frítekjumarkið umtalsvert, en það hefur staðið í stað frá árinu 2017, eða í heil sjö ár, og er 25.000 kr.

Það er brýnt réttlætismál að þeim eldri borgurum sem nú eru á lífeyri almannatrygginga, verði tryggt fjárhagslegt frelsi til jafns við aðra skattgreiðendur. Þessir eldri borgarar greiða nú allt að 74 prósent í jaðarskatta. Slíkt er óboðlegt og ólíðandi.

Ekki hafa allir ráð á að kaupa né leigja
Auk þess brenna húsnæðismálin á eldra fólki, nú á tímum vaxta- og verðlagshækkana. Það hafa ekki allir ráð á að kaupa, né leigja, húsnæði með brýnni þjónustu, enda hefur langvarandi húsnæðisskortur hækkað mjög verð á húsnæði.

Við eldri borgarar þurfum tafarlaust, að ná fram hagstæðum samningum við Reykjavíkurborg um lægra lóðaverð og frekari afslætti á byggingarréttargjöldum. Þannig yrði unnt að byggja lífsgæðakjarna sem væru í senn leigu- og eignaíbúðir á viðráðanlegu kjörum, þar sem fólk hefði kost á þjónustu. Í slíkum lífsgæðakjörnum mætti svo koma fyrir hjúkrunarheimilum.

Bitnar af sífellt meiri þunga á eldra fólki
Skortur á hjúkrunarheimilum er fyrir löngu orðinn að neyðarástandi sem bitnar af sífellt meiri þunga á eldra fólki og sjúkrahúsum. Fjölmennur aðalfundur FEB, sem fram fór á fimmtudaginn í síðustu viku, skoraði á stjórnvöld að bregðast við án tafar, af festu og áræði. Nú bíða 243 einstaklingar eftir því að fá úthlutuðu plássi en það ástand er óviðunandi.

Á fundinum var kjörin ný stjórn FEB, fjölbreyttum hópur öflugra einstaklinga, með sérfræðiþekkingu á hinum ýmsu sviðum. Það er einlægur ásetningur undirritaðs og nýkjörinnar stjórnar að beita sér fyrir brýnustu hagsmunum þeirra sem eldri eru, svo þeir fái notið ævikvöldsins við sómasamlegar aðstæður, lausir við óþarfa áhyggjur.

Sigurður Ágúst Sigurðsson
Formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni