Tillaga að lagabreytingu fyrir aðalfund FEB 21. feb. 2024

Aðalfundur FEB 21. febrúar 2024

Tillaga laganefndar að breytingum á grein 7.6 í lögum félagsins

Grein 7.6 nú/fyrir breytingu:

7.6 Stjórnarfundi skal formaður eða framkvæmdastjóri boða tryggilega. Stjórnarfundur er lögmætur ef meirihluti stjórnar er viðstaddur. Boða skal varamenn, sem hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum en ekki atkvæðisrétt nema þeir taki sæti aðalmanns.

Grein 7.6 með breytingum skv. tillögu laganefndar. Nýr/breyttur texti undirstrikaður og skáletraður:

7.6 Stjórnarfundi skal halda eins oft og þörf krefur og að jafnaði mánaðarlega. Skylt er að halda stjórnarfund komi fram rökstudd ósk frá a.m.k. tveimur stjórnarmönnum eða fram­kvæmdastjóra félagsins. Stjórnarfundi skal formaður eða framkvæmdastjóri boða tryggilega. Stjórnarfundur er lögmætur ef meirihluti stjórnar er viðstaddur.Boða skal varamenn, sem hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum en ekki atkvæðisrétt nema þeir taki sæti aðalmanns.
Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Falli atkvæði jöfn telst tillaga fallin.

Greinargerð:
Síðustu meiriháttar breytingar á lögum félagsins voru gerðar á aðalfundi 2020, þegar ákvæðum um stjórnarkjör, lagabreytingar og ýmsa tímafresti í því samhengi var breytt í því skyni að auðvelda aðkomu almennra félagsmanna að málefnum félagsins.

Breytingar sem nú eru lagðar til miða að því að kveða nánar á um starfshætti stjórnar félagsins. Þ.e. að setja fram viðmið um tíðni reglulegra stjórnarfunda, og skilgreina rétt almennra stjórnarmanna og framkvæmdastjóra félagsins til að kalla eftir því að haldinn verði auka stjórnarfundur. Þá er í tillögunni skilgreint hver skuli vera niðurstaða máls þegar atkvæði með og á móti tillögu falla jöfn.

Ákvæði af þessu tagi eru algeng í lögum félaga. Allajafna reynir sjaldan á þau en engu að síður er betra að þau séu tiltæk þegar á þarf að halda.

1. febrúar 2024,
Finnur Birgisson
Formaður laganefndar