Sólin hækkar á lofti og FEB námskeiðin hefjast að nýju

Erum að byrja aftur hægt og rólega með námskeiðin okkar og hópa, nú þegar fjöldatakmarkanir hafa verið rýmkaðar, með ýtrustu sóttvarnarreglur að leiðarljósi. Um er að ræða Íslendingasögur, Zumba, Sterk og liðug, spænsku, bókmenntahóp og ljóðahóp að ógleymdum Gönguhrólfunum .

Íslendingasögurnar hefjast aftur föstudaginn 15. janúar þar sem sögurnar Bárðar saga Snæfellsáss og Þórðar saga hreðu verða teknar fyrir. Ýkjukenndar og bráðskemmtilegar sögur á köflum sem greina frá sterkum tilfinningum, ástarkrafti og svikum í bland við hreysti og hetjulund.

Zumba Gold fyrir byrjendur og lengra komna byrjar svo 25. janúar. Um er að ræða dans og leikfimi sem notar svipaða uppbyggingu og Zumba Fitness, en breytt dansspor og lækkaður hraði sem hentar betur dönsurum sem eru 60 ára og eldri.

Sterk og liðug byrjar einnig aftur þann 25. janúar. Þetta er námskeið ætlað dömum og herrum eldri en 60 ára, sem geta ekki lengur stundað hefðbundna líkamsrækt. Allir tímarnir eru sérsniðnir að þörfum þátttakenda.

Bjóðum upp á þá nýjung að vera með spænskunámskeið fyrir byrjendur, en það hefst 26. janúar. Þar verður stuttlega farið yfir framburð og nokkur undirstöðuatriði í málfræði. Aðaláherslan verður þó á talað mál og orðaforða.

Nýtt námskeið í bókmenntum hefst 28. janúar þar sem bókin Leitin að svarta víkingnum eftir Bergsvein Birgisson verður tekin fyrir, en sú bók er gríðarlega efnismikil og kallar á virka þátttöku allra.

Gönguhrólfarnir komu síðan aftur í hús í morgun 13. janúar við mikinn fögnuð starfsmanna FEB.

Skráning fer fram á skrifstofu FEB, í gegnum síma 588 2111 eða með því að senda okkur póst á netfangið feb@feb. Sjá nánari tímasetningar fyrir hvert námskeið í Viðburðardagatalinu hér á heimasíðu FEB.

Hlökkum til að heyra frá ykkur