Minnum á hinar einu og sönnu FEB innanlandsferðir í júní

Ferðirnar okkar í maí slógu rækilega í gegn og nú er komið að júní ferðunum sem eru ekki minna spennandi.

Á slóðir Agnesar og Friðriks í Húnaþingi. (14.-15.júní) – 3 sæti laus
Tveggja daga ferð með gistingu eina nótt á Laugarbakka. Ekið sem leið liggur norður yfir heiðar og komið við í Selasetrinu á Hvammstanga. Síðan haldið Vatnsneshringinn með viðkomu á ýmsum stöðum s.s. Illugastöðum, við Hvítserk og Borgarvirki. Haldið að Hótel Laugarbakka, þar sem hópurinn gistir. Síðari daginn kemur Magnús Ólafsson fyrrverandi bóndi á Sveinsstöðum og sagnaþulur og leiðir okkur í allan sannleikann um síðustu aftökuna á Íslandi, þeirra Agnesar og Friðriks, og fer með hópnum að Þrístöpum og um Vatnsdal. Þá verður haldið í kirkjuna á Þingeyrum og síðan að Kolugljúfrum í Víðidal, áður en farið verður aftur suður.
Innifalið í verði er gisting, kvöldverður og morgunverður ásamt hádegishressingu báða dagana.
Leiðsögumaður: Kári Jónasson
Verð: 38.500 á mann m.v. gistingu í 2 manna herbergi. 4.000 krónur bætast við ef gist er í einbýli og/eða farþegi er utanfélagsmaður.

Njáluslóðir Suðurland (24. júní) – UPPSELT, hægt að skrá á biðlista
Dagsferð þar sem Guðni Ágústsson leiðir okkur á slóðir Hallgerðar Langbrókar og Njálsbrennu. Fyrsti viðkomustaður í Laugardælakirkju austan við Selfoss. Þar verður sagt frá Bobby Fischer. Þaðan verður haldið að Keldum og Odda á Rangárvöllum, áður en komið er í Hótel Fljótshlíð í Smáratúni, þar sem litast verður um og snædd kjötsúpa. Ekið að Hlíðarenda og yfir í Gunnarshólma þar sem Gunnar sneri aftur. Þá liggur leiðin suður að Bergþórshvoli áður en haldið verður til Reykjavíkur.
Fararstjóri: Guðni Ágústsson
Verð: 15.500 (17.500 kr. fyrir utanfélagsmenn)

Vestmannaeyjar (28. júní) – nokkur sæti laus
Dagsferð til Vestmannaeyja þann 28. júní. Ekið sem leið liggur austur fyrir Fjall og í Landeyjahöfn,þar sem Herjólfur bíður okkar, og ferjar bæði rútu og hópinn yfir til Eyja. Þar byrjum við á að aka inn í Herjólfsdal, áður en við fáum hádegisverð á Tanganum. Maturinn er innifalinn í verði ferðar. Eftir hádegi liggur leiðin m.a. út á Stórhöfða, um „nýja hraunið“ og Skansinn,áður en við förum í Eldheima og kynnum okkur afleiðingar Heimaeyjargossins í janúar 1973.
Þaðan fer svo hópurinn aftur um borð í Herjólf og kemur til Reykjavíkur um áttaleitið ef allar áætlanir standast.
Leiðsögumenn: Kári Jónasson og Gerður G. Sigurðardóttir.
Verð: 18.000 (20.000 fyrir utanfélagsmenn)

Skráning fer fram á skrifstofu FEB, í gegnum síma 588 2111 eða með því að senda póst á netfangið feb@feb.is