Íslendingasögu- og enskunámskeið að hefjast

Nú er vetrardagskráin öll að lifna við.

Hin geysivinsælu íslendingasögunámskeið byrja að nýju föstudaginn 16. september.
Í þetta sinn eru tvær sögur á dagskrá. Fyrstu sex vikurnar verður Færeyinga saga lesin en fjórar síðustu vikurnar verða helgaðar Svínfellinga sögu.
Færeyinga saga er örlagasaga þeirra Þrándar í Götu og Sigmundar Brestissonar, en þeim fyrrnefnda hefur verið líkt við sjálfan Snorra Sturluson. Ólafur Halldórsson hefur manna mest og best rannsakað þessa stórmerkilegu sögu.
Svínfellinga saga greinir frá deilum Ormssona á Svínafelli og Ögmundar Helgasonar í Kirkjubæ á árunum 1248–1252. Þar skyggnumst við inn í hina blóðugu Sturlungaöld undir lok þjóðveldisins þar sem nánir ættingjar berast á banaspjót.
Leiðbeinandi: Baldur Hafstað.
Uppbygging námskeiðs: Einu sinni í viku á föstudögum í 10 vikur hvert námskeið. Hóparnir verða tveir,fyrri kl. 10–12 (einnig í boði í gegnum fjarfundarbúnaðinn ZOOM) og sá seinni kl. 12:30–14:30.
Verð: 20.000 kr.

Mánudaginn 5. september byrja hin sívinsælu enskunámskeið.
Haldin verða tvö námskeið, annars vegar fyrir byrjendur og síðan fyrir lengra komna. Enskukennslan er með áherslu á talað mál. Lagt er upp með að námið sé hagnýtt og að fólk nái að bjarga sér á spjalli við enskumælandi fólk, fremur en verið sé að læra flókna málfræði. Námsgögn eru innifalin í verði.
Leiðbeinandi: Margrét Sölvadóttir
Uppbygging námskeiðs: Tvisvar sinnum í viku á mánu- og miðvikudögum í 4 vikur. Í boði verða sömu námskeið í nóvember.
Verð: 14.000 kr.

Skráning fer fram á skrifstofu FEB, í gegnum síma 588 2111 eða með því að senda póst á netfangið feb@feb.is.