Tölvupóstur á leið til félagsmanna

FEB – nýárskveðja, félagsstarfið, ferðir og annað á næstunni
Ágæti félagsmaður í FEB – Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni
Um leið og við þökkum ánægjulegar stundir á árinu sem var að líða óskum við ykkur gleði og velferðar á nýju ári.
Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni eru ein allra stærstu frjálsu félagasamtök á Íslandi með rúmlega 11 þúsund félagsmenn. Félagar geta allir orðið sem eru 60 ára og eldri. Það er okkar allra að virkja og nýta þann samtakamátt sem felst í slíkum fjölda.
Við höfum nú fengið fyrsta smjörþefinn af því hvernig ráðamenn sýna í verki fyrirheitin sem margir stjórnmálamenn gáfu í síðustu kosningabráráttu. Þau fyrirheit og hvernig þau nú birtast eldri borgurum í verki geta verið ákveðið innlegg fyrir starfshóp sem forsætisráðherra skipaði í dag (5. jan.) um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.
Flestir launahópar hafa fengið leiðréttingu á kjörum sínum eftir að efnahagsstöðuleiki komst á að nýju, en ellilífeyrisþegar hafa setið eftir með sín kjör. Afleiðingar þessa eru að lífeyrisþegar séu á góðri leið með að verða eða þegar orðinn lágtekjuhópur í samfélaginu og þetta ber að leiðrétta.
Nýtum samtakamátt okkar kæru félagsmenn jafnframt því að hvetja fólk 60 ára og eldra sem ekki er nú þegar félagsmenn, til að ganga í félagið og gerum þannig gott félag enn öflugra.
Við vekjum athygli á að félagsstarfið er hafið af fullum krafti.
Við vitum að áhugasvið félagsmanna frá 60 ára aldri og upp úr er fjölbreytt og að sjálfsögðu mótast starfið af því. Allir eiga að geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi án tilliti til aldurs, stöðu og eða fjárhagsstöðu.
NOKKRAR DAGSETNINGAR VEGNA FÉLAGSSTARFSINS
– skráning á feb@feb.is eða í síma 588 2111
Leikhúsferð, skoðun og matur 31. janúar kl. 18.00. Farið á Himnaríki og helvíti.
Sýningin byggir á þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar í leikgerð Bjarna Jónssonar.
Umræða um verkið verður hér í Stangarhylnum þann 25. janúar kl. 14.00. Þar mun höfundur leikgerðar mæta, ræða verkið og uppsetningu þess.
Leikhúsmiðinn kostar 5.600 kr. á mann + matur valkvætt kr 1.850 á mann.
Við fáum skoðunarferð um leikhúsið á undan, og mat (smáréttir) kr. 1.850 á mann. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku með því að svara þessum tölvupósti eða hringja í síma 588 2111 fyrir 15. janúar – leikhúsferðin er opin öllum félagsmönnum.
SKÁK alla þriðjudaga kl. 13.00. Fyrsti leikur var 2. janúar.
Gönguhópur úr Stangarhylnum alla miðvikudaga kl. 10.00. Kaffi og rúnstykki á eftir.
Bara að mæta og klæða sig eftir veðri.
DANS öll sunnudagskvöld kl. 20.00. Hefst 7. janúar. Hljómsveit hússins. Allir velkomnir.
ZUMBA Gold byrjar mánudaginn 8. janúar kl. 10.30. Bjóðum eldri sem nýja iðkendur velkomna í skemmtilegan hóp þar sem gleðin er við völd undir stjórn Tanyu.
STERK OG LIÐUG – námskeið fyrir dömur og herra eldri en 60 ára og eldri. Verður tvisvar í viku og hefst í næstu viku ef næg þátttaka fæst. Skrá sig núna!
Sterk og liðug er námskeið fyrir dömur og herra eldri en 60 ára, sem geta ekki lengur stundað hefðbundna líkamsrækt. Allir tímarnir verða sérsniðnar að þörfum þátttakenda. Við munum gera æfingarnar sitjandi á stólum eða standandi við hliðina á stól, sem við notum til stuðnings. Við byrjum á léttri upphitun og við tekur einföld leikfimi til að örva blóðrásina og liðka okkur. Eftir það gerum við léttar rólegar styrkjandi æfingar með það sem markmið að rétta úr bakinu, bæta líkamsstöðu, minnka bakverki, verki í hnjám og mjöðmum. Í lok tímans gerum við árangursríkar teygjur á meðan líkaminn er ennþá heitur til að lengja vöðvana og vinna gegn gigtarverkjum. Þetta námskeið verður sérsniðið fyrir fólk á besta aldri, sem er ungt í anda, en hefur ekki lengur líkama til að stunda hefðbundna líkamsrækt. Þú getur ennþá stundað markvissa þjálfun án þess að ofreyna liðamótin. Við þurfum að halda áfram að hreyfa okkur með hækkandi aldri til þess að viðhalda góðri líkamlegri og andlegri heilsu.
Spjaldtölvu / iPad námskeið verða reglulega – fyrsta hefst iPad námskeiðið hefst mánudaginn 22. janúar kl. 13.30.
Næsta námskeið hefst síðan 29. janúar kl. 13.30. Kennt er á mánu- og fimmtudögum.
Leiðbeinandi Kristrún Heiða Hauksdóttir.
Íslendingasögu / fornsagnanámskeiðið hefst föstudaginn 19. janúar kl. 13.00 og verður á hverjum föstudegi í tíu vikur (kl. 13.00–15.00 með kaffihléi). Kennari: Baldur Hafstað.
Á fyrri hluta námskeiðs verður Víga-Glúms saga aðalviðfangsefnið. Þetta er ein af okkar eldri Íslendingasögum, og lýsir ættardeilum í Eyjafirði á 10. öld. – Seinni hlutinn verður einkum helgaður Prestssögu Guðmundar Arasonar (varðveitt í Sturlungu) þar sem lýst er uppvexti Guðmundar góða og prestsárum fram til 1203 en það ár var hann kjörinn til biskups á Hólum. Báðar þessar sögur eru safaríkar og veita innsýn í mannlíf nyrðra, annars vegar fyrir kristnitöku og hins vegar eftir að kristni hefur fest rætur í landinu.
Ljóðahópur fimmtudaga kl. 14.00. Nánar auglýst síðar.
Umræða um skáldsögur. Síðasti fimmtudagur hvers mánaðar. Betur auglýst síðar.
Ferðalög
60+ á TENERIFE með Heimsferðum / Gunnari Svanlaugssyni 11. apríl 2018
– sérverð – 10 þúsund króna aukaafsláttur fyrir félagsmenn FEB til 31. janúar n.k.
Gunnar verður með sína rómuðu ferð í vor til Tenerife fyrir fólk í blóma lífsins. Hann leggur ríka áherslu á að allir fái að njóta sín og setur saman dagskrá sem hentar öllum aldurshópum yfir sextugt. Jákvæðni, gleði og hlátur einkenna vinnu Gunnars, en rík áhersla er lögð á líkamlegu og andlegu hliðina þó allt sé samt í hófi gert. Göngutúrar um svæðið, léttar æfingar, ásamt leikjum, spilum, dansi og söng eru í boði alla daga og rík áhersla er lögð á samverustundir með skemmtilegu ívafi.
Í þessari ferð er gist á Hotel La Siesta 4* – frábært hótel, staðfest af FEB.
Heimsferðir bjóða félagsmönnum FEB 10 þúsund króna aukaafslátt til 31. janúar n.k.
Sérferðir erlendis á vegum FEB sem nú liggja fyrir – bókun stendur yfir á feb@feb.is / síma 5882111
Með hækkandi sól er tilvalið að huga að hagstæðum ferðum á vegum FEB.
Rútuferð til höfuðborga Norðurlanda 28. mars – 6. apríl 2018 –nánari lýsing hér
Pétursborg og Helsinki 9. – 14. maí 2018 –nánari lýsing hér
Kynnum á næstunni samstarf við AHA.is sem er sölu- og markaðssíða sem auðveldar kaup á netinu með mat, veitingar og fleira. Félagsmenn FEB munu þar njóta sérkjara og tenging verður við hina vinsælu Afsláttarbók FEB.
Viljum vekja athygli á; GÆÐASTUNDIR Í LISTASAFNI ÍSLANDS dagskrá ætluð aldrinum 60+ fyrst 17. janúar kl. 14.00
Gæðastundir í Listasafni Íslands eru leiðsagnir og viðburðir í Listasafni Íslands. Dagskráin er ætluð eldri borgurum (+60) og er samsett af fjölbreyttum viðburðum, sérsniðnum leiðsögnum, spjalli við sérfræðinga um ákveðin listaverk, tímabil í listasögunni og valda listamenn.
FJÁRSJÓÐUR ÞJÓÐAR 17.01.2018, 14.00 – 15.00, Listasafn Íslands
Kynning á dagskrá, saga Listasafns Íslands og leiðsögn í umsjá Hörpu Þórsdóttur, safnstjóra um sýninguna Fjársjóður þjóðar – valin verk úr safneign. Ávallt er boðið upp á kaffi og meðlæti á gæðastundum í Listasafni Íslands. Hámarksfjöldi gesta á hverjum viðburði er 25 manns. Hægt er að skrá sig á staka viðburði með því að senda póst á netfangið mennt@listasafn.is eða í síma 515 9600. Aðeins er greitt fyrir aðgöngumiða á safnið í hvert skipti, kr. 750.
Skrifstofa FEB að Stangarhyl 4, er opin frá kl. 10.00 – 16.00 alla virka daga. Sími er 588 2111 og netfang feb@feb.is
Á skrifstofunni starfa þau Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri, Kristín Lilja Sigurðardóttir, bókhald og uppgjör og Jóhanna Ragnarsdóttir, félagsskrá og umsjón með sal. Formaður FEB er Ellert B. Schram.
Félagsstarfið fer að mestu fram í Ásgarði, sal félagsins í Stangarhylnum.
Salurinn sem er glæsilegur er leigður út fyrir hverskyns veislur. Afsláttur er veittur fyrir félagsmenn fyrir eigin samkvæmi.
FEB er á Facebook – Líkaðu við FEB með því að smella á okkur hér
Með félagskveðju,
Gísli Jafetsson
Framkvæmdastjóri
Stangarhyl 4, 110 Reykjavik
s. 588 2111 – www.feb.is og á
feb@feb.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *