Í skammarkróknum – Ellert B. Schram formaður FEB

Þegar ég var í Melaskólanum, tíu eða ellefu ára gamall, var ég rekinn úr kennslustofunni og settur í skammarkrók fyrir að hrekkja skólabróðir. Sem ég hafði ekki gert. Mér þótti þetta leiðinleg og ósanngjörn refsing, sem ég man ennþá eftir.
Því er ekki að neita að ég upplifi þessa tilfinningu um þessar mundir, þegar ég les á fésbók, kvartanir og skammir í minn garð, fyrir aðgerðarleysi og rolugang að því er varðar lagfæringar og leiðréttingar á kjörum eldri borgara.Í fyrsta lagi minni ég á að FEB ræður ekki þeirri ferð. Ákvarðanir sem þarf að taka eru í höndum alþingis og ríkisstjórnar. Í öðru lagi er það ósatt að við höfumst ekkert við. Undiritaður skrifaði bréf til forsætisráðherra, um að skipa starfshóp til að rétta hlut eldri borgara hvað varða ellilífeyri og almannatryggingar. Bréfið var sent í janúar.  Ég upplifði að ég væri settur í skammakrókinn hjá Landssamband eldri borgara þegar ég fékk ávítur fyrir að skipta mér af þessu máli. Það tók forsætisráðherra allmargar vikur að svara bréfi mínu og skipa starfshópinn. Hann er enn að störfum, sá hópur, þótt lítið hafi gengið. En ég bind ennþá vonir um að árangur náist í því samtali sem fulltrúar okkar (LEB og FEB) eiga við nefndarmenn ríkistjórnarinnar.
Ég hef, ásamt framkvæmdastjóra og annara stjórnarmanna, átt samskipti við ráðamenn og ráðherra. Mætt á fundum hjá stjórnmálaflokkum sem vilja við okkur tala. Við höfum setið fundi með forystumönnum verkalýðsfélaga og farið þess á leit að þeir taki tillit til okkar hagsmuna, þegar kröfur verða settar fram. Við höfum látið gera skýrslu og tillögur um breytt ellilífeyriskerfi. Við höfum sent frá okkur opinberar yfirlýsingar um vonbrigði á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um 3.4% hækkun á ellilífeyrisgreiðslum frá TR.  Við höfum verið boðuð á fund fjárlaganefndar alþingis og sjálfur mun ég, nú í vikunni, eiga fund með forsætisráðherra um framhaldið og hvers sé að vænta.
Ég minni líka á, að það er litið svo á, að LEB, Landssamband eldri borgara, eigi að vera í forystu í baráttunni um málefni eldri borgara. Það er auðvitað skynsamlegast og eðlilegt en þá þarf  líka að skipuleggja málflutning og vinnubrögð við félög eldri borgara hvarvetna á landinu. Og hafa þau  með í sókninni. Það er verkefni okkar allra að fylgja eftir þeim ábendingum og lagfæringum sem við leggjum fram. Við vinnum aldrei sigra, ef við erum sjálf að rífast innbyrðis og tala niður til þeirra sem láta sig varða hagsmuni eldri borgara og vilja taka þátt í þessum samtali við landstjórnina.
Ekki senda þá í skammarkrókinn, sem ekki eiga það skilið.
Ellert B Schram
Formaður félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni
 
 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *