Samningur um tannlæknaþjónustu við aldraða

Nýr samningur um tannlæknaþjónustu við aldraða og öryrkja tekur gildi nú 1. september 2018
Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga hækkar almennt úr 27% í 50%. Tannlæknaþjónusta við langveika aldraða og öryrkja á stofnunum verður þeim að kostnaðarlausu.
Samningurinn markar tímamót, því enginn samningur hefur gilt um tannlæknaþjónustu fyrir þessa hópa frá árinu 1999 og tannlæknakostnaður þeirra því aukist jöfnum skrefum.
Heilbrigðisráðherra staðfesti samninginn með undirritun sinni í velferðarráðuneytinu í dag, að viðstöddum Þórunni Sveinbjörnsdóttur, formanni Landssambands eldri borgara og Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, formanni Öryrkjabandalags Íslands.Framlög til verkefnisins aukin úr 700 milljónum kr. í 1,7 milljarða króna á ári

Útgjöld sjúkratrygginga til tannlækninga öryrkja og aldraða hafa verið 700 milljónir króna á ári. Þar sem engir samningar hafa verið við tannlækna hefur verðlagning þeirra ekki verið samræmd en greiðsluþátttaka sjúkratrygginga hefur undanfarið numið að jafnaði um 27% af verði þjónustunnar. Nýi samningurinn tryggir samræmda verðlagningu og greiðsluhlutfall sjúkratrygginga hækkar í rúm 50% af kostnaði einstaklings.
Stefnt að 75% greiðsluþátttöku sjúkratrygginga
Heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp í byrjun þessa árs og fól honum að gera tillögur um framtíðarfyrirkomulag tannlæknaþjónustu við aldraða og öryrkja í samræmi við ákvörðun stjórnvalda um aukna fjármuni til málaflokksins. Á grundvelli þeirra tillagna fól ráðherra Sjúkratryggingum Íslands að vinna að samningum við tannlækna um þjónustuna. Stefnt var að því að niðurgreiðsla ríkisins yrði 75% á móti 25% greiðsluþátttöku einstaklings og 100% fyrir tiltekna hópa. Það fjármagn sem var til ráðstöfunar dugði ekki til að ná þessum markmiðunum til fulls en vilji stendur til þess að auka greiðsluþátttökuna í skrefum þar til hún hefur náð 75% markmiðinu og var tillaga heilbrigðisráðherra þess efnis samþykkt á fundi ríkisstjórnar í dag.
Tannlæknaþjónusta við langveika á stofnunum verður þeim að kostnaðarlausu
Samkvæmt samningnum verður tannlæknaþjónusta öryrkja og aldraðra sem eru langveikir og dveljast á sjúkrahúsum, hjúkrunar¬heimilum eða hjúkrunarrýmum á öldrunarstofnunum þeim að kostnaðarlausu. Hið sama gildir fyrir andlega þroskahamlaða einstaklinga 18 ára og eldri, þó með þeim fyrirvara að áður en til greiðslu kemur þarf að sækja sérstaklega um hana.
Skráning hjá tannlækni
Nýi samningurinn, eins og samningurinn um tannlækningar barna frá árinu 2013, byggir á því að hinn sjúkratryggði sé skráður hjá tannlækni sem boðar hann í reglubundið eftirlit. Þeir sem leitað hafa til tannlæknis eftir 1. janúar 2017 verða sjálfkrafa skráðir hjá honum. Aðrir geta óskað eftir skráningu þegar þeir fara næst til tannlæknis eða gengið sjálfir frá skráningu hjá tannlækni í Réttindagáttinni á vef Sjúkratrygginga Íslands.
• Reglugerð heilbrigðisráðherra varðandi samninginn tekur gildi 1. september

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *