Opið bréf til þingmanna

Markmið almannatrygginga er að tryggja ellilífeyrisþegum framfærslu sem dugar þeim til að geta framfleytt sér og lifað sjálfstæðu lífi. Efnahagsástandið eftir hrunið hefur haft neikvæð áhrif á afkomu og stöðu þessa hóps í samfélaginu eins og annarra. Þar sem um er að ræða hóp sem hefur takmörkuð úrræði til að bæta stöðu sína sökum aldurs er brýnt að tryggja að efnahagsleg staða þeirra sé bætt. Tryggja verður lífeyrisþegum afkomu sem er í takt við það félagslega og efnahagslega umhverfi sem það býr við í landinu.

Flestir launahópar hafa fengið leiðréttingar á kjörum sínum eftir að efnahagsstöðuleiki komst á að nýju, en ellilífeyrisþegar hafa setið eftir með sín kjör. Afleiðingar þessa eru að lífeyrisþegar séu á góðri leið með að verða eða þegar orðin lágtekjuhópur í samfélaginu og þetta beri að leiðrétta.
Í ársbyrjun 2017 var gerð kerfisbreyting á fyrirkomulagi almannatrygginga sem miðaði að því að hækka verulega framlag ríkisins til lífeyrisþega. Áhrif þessara breytinga eru þegar farnar að gæta í kjörum þessa hóps, sumt talið vera til bóta en annað síður. Eitt dæmi um breytingu sem nú kemur fram er að ellefu þúsund færri ellilífeyrisþegar fá desemberuppbót nú fyrir jólin heldur en í fyrra.
Afkoma ellilífeyrisþega byggir á samanlögðum tekjum þeirra frá almannatryggingum, greiðslum úr lífeyrissjóðum, fjármagnstekjum og öðrum tekjum sem þeir afla. Greiðslur almannatrygginga til lífeyrisþega eru tekjutengdar, þ.e. allar aðrar tekjur umfram frítekjumark skerða framlag almannatrygginga með einhverjum hætti. Fyrir kerfisbreytinguna sem gerð var í ársbyrjun, var skerðingin bundin uppruna tekna, hvort um væri að ræða lífeyristekjur, atvinnutekjur eða annað.
Skapaði þetta hátt flækjustig sem gerði lífeyrisþegum erfitt með að átta sig á heildaráhrifum skerðinga á þær tekjur sem þeir öfluðu utan almannatrygginga.
Eftir kerfisbreytingu almannatrygginga 2017, er aðeins um eitt frítekjumark að ræða og er það óháð tekjuuppruna. Einfaldar þetta skerðingarkerfið gagnvart lífeyrisþegum, en þetta hefur einnig valdið ákveðnu raski á afkomugrunni fólks frá því sem áður var. Hafa afleiðingarnar verið íþyngjandi fyrir marga og ekki stuðlað að þeim markmiðum sem stefnt var að með kerfisbreytingunni. Í dag er tekjuskerðingin hjá þeim lífeyrisþegum sem búa í sambúð 45% og hjá þeim sem búa einir er hún 56,9% af öllum tekjum umfram frítekjumarkið, sem mörgum finnst of lágt.
Ráðstöfunartekjur ellilífeyrisþega, þ.e. heildartekjur þeirra eftir skatt, hafa hækkað síðastliðin fimm ár. Á sama tíma hefur skattbyrði hópsins hinsvegar aukist og tekjutengingar orðið meiri. Þeir lífeyrisþegar sem verða fyrir óvæntum útgjöldum telja sig eiga erfiðara með að mæta slíku í dag en fyrir efnahagshrunið. Í dag eru um 60% lífeyrisþega með ráðstöfunartekjur undir 285 þús kr á mánuði, þegar lágmarksframfærsla er áætluð um 300 þús kr. Hækkun núverandi frítekjumarks um 75 þús kr á mánuði myndi bæta raunhag lífeyrisþega um 47 þús kr á mánuði eftir skatt og gera það að verkum að einugis 30% lífeyrisþega hefði ráðstöfunartekjur undir 300 þús kr á mánuði. Neðsta hópnum mætti svo mæta með sérstökum ráðstöfunum, en 70% lífeyrisþega væru komnir vel á leið til sjálfsbjargar.
Nú liggur fyrir þér sem þingmanni að ákveða kjör þessa hóps til næstu framtíðar.
Í Lögum um almannatryggingar 69 gr. segir m.a.: Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega…
Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.
Línan hefur verið dregin og fengið blessun….
Kjararáð hefur ákveðið að hækka laun Biskups Íslands um 20%. Hækkunin nemur um 380 þúsund krónum á mánuði og er afturvirk til ársbyrjunar 2017.
Flugvirkjar fá launahækkun sem er svipað og hækkun Biskups svo línan hefur verið dregin líkt og framkvæmdastjóri SA sagði fyrir stuttu.
Sú hækkun sem boðuð er á „bótum“ almannatrygginga er ekki í samræmi við launaþróun í landinu sem ber að fara eftir sem fyrsta valkosti samkvæmt lögum um almannatryggingar.
Vegna orða þingmanns og ráðherra í útvarpinu 20.12.2017 um að miða ætti laun ykkar þingmanna við launavísitölu, vaknar sú spurning af hverju laun lífeyrisþega eru miðuð við vísitölu neysluverðs eins og segir í 69 gr.
Hér er kannski skýringanna að finna, þ.e. þegar bornar eru saman vísitölur launa og neysluverðs.
Í lögunum um almannatryggingar segir einnig í fyrstu málsgrein; „Markmið laga þessara er að tryggja þeim sem lögin taka til og þess þurfa bætur og aðrar greiðslur vegna elli, örorku og framfærslu barna, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum. Með bótum og greiðslum skv. 1. mgr., ásamt þjónustu og aðstoð sem kveðið er á um í öðrum lögum, skal stuðlað að því að þeir sem lögin taka til geti framfleytt sér og lifað sjálfstæðu lífi.“

Bestu óskir um ánægjulega jólahátíð og ósk um friðsæld og breytingar á næsta ári með þökk fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.
FEB – Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *