Hverju lofuðu þau? spyr formaður FEB, Ellert B. Schram

Hverju lofuðu þau í aðdraganda síðustu kosninga?
Nýjustu fréttir frá fjármálaráðherra eru þær að ríkisstjórnin haldi sér í 3.4% hækkun á ellilífeyri frá almannatryggingum þegar fjárlagafrumvarpið verður afgreitt. Þetta telur hann nægilegt. Það mun vera ca 10 þús. króna hækkun á mánuði, ef þetta verður niðurstaðan í afgreiðslu fjárlagafrumvarps í næsta mánuði. Kaupmáttur lífeyris frá TR heldur áfram að dragast aftur úr kaupmætti launa. Eins og hann hefur gert í mörg undanfarin ár.

Þetta eru sem sagt skilaboðin frá stjórnvöldum. Þetta eru viðbrögðin við beiðni fulltrúa eldri borgara gagnvart ríkisstjórn, fjárlaganefnd Alþingis og starfshópi, sem enn á eftir að skila frá sér tillögum sínum.
Ummæli fjármálaráðherra á þingi, sem sjónvarpað var um daginn, er eins og löðrungur í andlitið. Ég hef staðið í þeirri meiningu að starfshópurinn, sem skipaður var í nafni forsætisráðherra, sé sameiginlegur hópur eldri borgara og talsmanna ríkisins, sem skili sínum tillögum, áður en gengið er frá fjárlögum, nú fyrir áramótin. Eða er hann bara til sýnis?
Hvar er fólkið og flokkarnir sem sitja á Alþingi? Eða er þetta eins manns ákvörðun? Er þetta niðurstaðan fram hjá hópnum sem setið hefur síðan í vor, skipaður af fulltrúum ríkisins og talsmönnum eldri borgara? Er þetta ákvörðun ríkisstjórnarinnar? Eru aðrir ráðherrar, þingmenn stjórnarflokkanna og kjósendur, óspurðir í klappliði?
Með 3.4% hækkun lífeyrisins dregst kaupmáttur launa, aftur úr, eins og hann hefur gert í mörg undanfarin ár. Hann er hungurlús.
Það sorglega við þessi tíðindi, er að horfa upp á niðurstöður og viðbrögð sem núverandi stjórnarflokkar bera allir ábyrgð á. Hvað sögðu ríkisstjórnarflokkarnir, þegar kallað varið eftir stuðningi kjósenda í síðustu kosningum?
Framsóknarflokkurinn: Umtalsverð hækkun lægstu launa á að vera forgangsverkefni í kjarasamningagerð næstu ára og hækkun bóta ellilífeyris á að fylgja slíkum hækkunum.
Sjálfstæðisflokkur: Lágmarkslífeyrir þeirra sem búa einir verður 300 þúsund krónur frá og með 1. janúar 2018. Áfram verður lögð áhersla á að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði ellilífeyris eldri borgara. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að eldri borgarar geti búið sjálfstæðu lifi á eigin heimili sem lengst.
Vinstri grænir: Við leggjum áherslu á að ríki og sveitafélagög ráðist í aðgerðir til að uppræta fátækt á Íslandi innan nokkurra ára. Til þess skal gera greiningu á umfangi, eðli og orsökum fátæktar á Íslandi með það að markmiði um að bregðast við þessum orsökum svo uppræta megi fátækt.
Þetta var sagt fyrir kosningarnar. Eru þetta efndirnar? Eru þetta skilaboðin til kjósenda? Til gamla fólksins? Eru þetta niðurstöðurnar, sem teknar eru fyrir fram, áður en starfshópur forsætisráðherra skilar sínum tillögum? Er kannske búið að afgreiða málið, áður en umræðunni er lokið?
Ég bara spyr.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *