Hlýjar kveðjur og frestun viðburða hjá FEB

Kæri félagsmaður
Við sendum þér hlýjar kveðjur og vonum að þú hafir það sem allra best og farir vel með þig.  Okkur þykir leitt að tilkynna að ákveðið hefur verið að fresta öllum samkomum á vegum FEB um óákveðin tíma. Þetta er gert í ljósi þess að heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur tímabundið í fjórar vikur frá og með næsta mánudegi til að hægja á útbreiðslu COVID-19. Þar er reyndar átt við viðburði þar sem fleiri en hundrað manns koma saman og ná takmarkanir  til landsins alls. En þar sem eldri borgarar og fólk með undirliggjandi sjúkdóma er sérstakur hópur sem þarf að huga vel að, höfum við tekið þessa ákvörðun.
En sólin rís alltaf upp að nýju og saman komumst við í gegnum þetta. Skrifstofa FEB verður að sjálfsögðu opin áfram og við erum hér til að þjónusta þig í gegnum síma og með öðrum rafrænum hætti t.d. í gegnum heimasíðu félagsins www.feb.is, Facebook og með tölvupósti
Viljum líka minna á að með hækkandi sól eru margt spennandi framundan t.d. margar mjög áhugaverðar ferðir innanlands.  Þar er helst að nefna:

  • Söguferðir í tengslum við Íslendingasagna námskeiðin, í lok maí
  • Ferð á slóðir Agnesar og Friðriks í Húnaþing um miðjan júní
  • Dagsferð til Vestmannaeyja þann 20. júní
  • Fjallabaksleið nyrðri, Landmannalaugar og Vík í byrjun ágúst

Og margar aðrar spennandi ferðir sem við munum upplýsa nánar um mjög fljótlega.
Með von um að þú hafir það sem allra best
F.h. FEB
Dýrleif, Jóhanna og Kristín

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *