Grein Ellerts B. Schram formanns FEB

Málefni eldri borgara og ástand
Það hefur gengið ýmislegt á, síðustu dagana í málefnum Félags eldri borgara í Rvík og fjölmiðlar hafa verið duglegir að hringja og birta fréttir af stöðunni sem snýr að sölu íbúða í Árskógum og verði þeirra, til kaupenda. Hér er um að ræða íbúðir sem verktakar Mótx hafa byggt fyrir FEB.  Málið snýst um það að búið var að verðsetja íbúðirnar og tilkynnt hverjir valdir voru til kaupa. Byggingarnefnd FEB, gaf út verðið og við í stjórninni vissum ekki betur en að þær tölur væru bundnar við kostnað bygginganna. Sem ekki reyndist nægilegt þegar upp var staðið.  Það vantaði fjögur hundruð milljón króna, til að endar næðu saman. Þar stendur hnífurinn í kúnni.Félag eldri borgara hefur tekið að sér að sækjast eftir lóðum til að koma til móts við eldri borgara og selja þeim á kostnaðarverði, sem oftast er mun lægra en markaðsverð. Með öðrum orðum, hefur það aldrei vakað fyrir okkur að græða á byggingum, heldur hitt að þjóna kröfum og þörfum eldri borgara til að minnka við sig húsnæði og eignast ódýrari og minni íbúðir, þegar aldurinn lengist.
Hér er ekki um það að ræða, að félagið eða einhverjir einstaklingar séu að selja til að græða. Hér hefur enginn misnotað stöðu sína, hér hefur enginn brotið lög, hér hefur enginn svikamylla eða misnotkun átt sér stað, heldur að útreikningar á kostnaði, reyndust hærri en upp var gefið, þegar íbúðirnar áttu að afhendast.
Félag eldri borgara neyddist til að hækka íbúðarverðið, til að geta greitt reikninga frá verktökum húsanna.  Um það snýst málið.
Í Félagi eldri borgara í Reykjavík eru skráðir rúmlega tólf þúsund meðlimir. Félagið hefur staðið fyrir margvíslegu starfi og skemmtun. Utanferðum, innanlandsferðalögum, námskeiðum, bridge, söng, dans og samba, námskeiðum og sagnfræði og mörgu fleira. Þar er líka starf í þágu lífeyris og eftirlauna eldri borgara og hvergi gefið eftir. Þjónusta og uppákomur gagnvart eldri borgurum er líka og kannske stærsta viðfangsefni félagsins. Starfsemi FEB er og hefur alla tíð og ekki síst, nú síðustu árin, verið mikilvæg og eftirsótt hjá eldri borgurum á höfðuðborgarsvæðinu og gegnir þar hlutverki, sem skiptir máli fyrir meðlimi og aldraða og bíður upp á áhyggjulausara ævikvöld.
Viðleitni mín og okkar allra (án launa)sem tekið hafa að sér að sinna málefnum eldri borgara er sú, að skilja kvartanir og kröfur þess fólks, sem hefur sóst eftir og fengið íbúðir í Árskógum. Við erum að leita að niðurstöðum, sem hjálpar bæði þeim og okkur, til að endar nái saman. Við erum jafn miður okkar og fólkið sem hefur fengið réttinn til að kaupa. Ég bendi á síðasta útspil okkar, þar sem  lögð er fram tillaga um sættir.
Ellert B Schram
Formaður FEB.
 
 
 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *