Ég á erindi við ykkur – ræða formanns FEB Ellerts B. Schram á Alþingi 11.12.18

Virðulegur forseti
Ég hef fengið tækifæri til að setjast hér á þingbekk í nokkra daga. Það finnst mér skemmtilegt og ekki síst fyrir það að fá tækifæri til að koma hér sem fulltrúi eldri borgara því ég þykist eiga erindi hingað.
  Stofnaður var starfshópur um málefni eldri borgara, síðastliðið vor, en því miður hefur sá hópur ekki ennþá skilað neinum niðurstöðum. Í staðinn höfum við tillögur fjárlaganefndar, sem fela í sér 3.6 % hækkun á ellilífeyri Almannatrygginga. Fólkið sem lítið eða ekkert hefur nú á milli handanna, fær 139 þúsund og fimm hundruð krónur frá TR og svo er rukkaður skattur til baka. Þetta eru upphæðir sem eru langt fyrir neðan framfærsluviðmið. Þetta er ellilífeyrinn til þess fólks sem býr við fátækt, veikindi, einangrun og tómleika.
Nú er ég ekki kominn hingað til að rífast eða skammast, vegna þess að ég þykist vita að langflest ykkar, hér á alþingi eru velviljuð og eru mér sammála um hér þurfi að taka til höndum og bjóða eldri borgurum upp á lífsgæði og áhyggjulaust ævikvöld. Elsta kynslóðin má ekki að vera útundan.
Kæru þingmenn og konur. Ég kem í þennan ræðustól, til að skora á ykkur, að standa vörð um lífsgæðin og sinna því fólki, sem komið er til ára sinna.
Þótt ég sé sjálfur kominn til aldurs og elli, þá er erindið, af minni hálfu, hingað í þingsalinn, það eitt, hvar í flokki sem þið standið, að sameinast um að aldraðir fái lifað og dáið með reisn.
 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *