ATSKÁKMÓT ÖLDUNGA 65 +

Íslandsmót öldunga 65 ára og eldri í atskák verður haldið þriðjudaginn 2. apríl í Ásgarði, félagsheimili FEB að Stangarhyl 4, Reykjavík

Eins og áður standa skákklúbbar eldri borgara á Höfuðborgarsvæðinu sameiginlega að mótshaldinu. Þetta er í fimmta sinn sem slíkt Íslandsmót með atskákarsniði er haldið í þessum elsta aldursflokki virkra skákmanna.
Tefldar verða 10 umferðir með tímamörkunum 7+5; þe. 7 mínútna umhugsunartíma á skákina plús 5 sekúndna viðbótartími á leik.
Mótið hefst kl. 13 og lýkur um kl. 17 með verðlaunaafhendingu. Það verður reiknað til alþjóðlegra atskákstiga.
Þátttökugjald er kr. 600 og innifelur kaffi og með því í skákhléi. Björgvin Víglundsson er núverandi Íslandsmeistari og hefur unnið sæmdartitilinn „ Atskákmeistari Íslands 65 ár og eldri“ í öll fjögur skiptin sem um hann hefur verið keppt áður.
Auk verðlaunagripa verða veitt vegleg bókaverðlaun. Sigurvegarinn fær nafn sitt greypt gullnu letri a veglegan farandgrip sem halda mun nafni hans á lofti um ókomna tíð.
Vænst er góðrar þátttöku – mikilvægt að mæta tímanlega á mótsstað.
Mótsnefndina skipa:: Einar S. Einarsson, Finnur Kr. Finnsson og Garðar Guðmundsson.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *