„Aldraðir eiga rétt á lífeyri"

Er rétt að kalla lífeyri aldraðra frá almannatryggingum bætur? Ég tel ekki. Þetta er lífeyrir. Einnig mætti kalla þetta laun, a.m.k. eftirlaun. Bætur er ekki réttnefni. Aldraðir, sem komnir eru á eftirlaun, hafa greitt skatta til ríkisins alla sína starfsævi. Þeir hafa greitt til almannatrygginga og eiga rétt á lífeyri eða eftirlaunum frá almannatryggingum. Þegar þeir síðan fá lífeyri frá almannatryggingum heldur ríkið áfram að skatteggja þá þó þeir séu hættir störfum. Ríkið tekur til baka af lífeyrinum.
Þannig að eldri borgari sem fær 300 þúsund krónur á mánuði frá almannatryggingum verður að greiða ríkinu til baka 57 þúsund krónur! Með öðrum orðum: Á sama tíma og lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum dugar ekki til sómasamlegrar framfærslu hrifsar ríkið til baka drjúgan hlut af lífeyrinum!

Orðið bætur er neikvætt
En er rétt að kalla lífeyri öryrkja bætur? Nei. Ég tel heppilegra að halda sig við orðið lífeyrir.Það er eitthvað neikvætt við orðið bætur. Og ekki hefur núverandi fjármálaráðherra bætt ímynd orðsins. Hann hefur ítrekað talað niður til „bótaþega“ sem hann kallar svo. Fjármálaráðherra talar niðrandi um það að vera á bótum og segir, að vissir stjórnmálamenn vilji, að allir séu á bótum! Það er að sjálfsögðu fráleitt að halda slíku fram. Þegar menn slasast alvarlega eða fá langvinna sjúkdóma geta þeir misst starfsorkuna að fullu eða hluta hennar og orðið öryrkjar. Enginn kýs sér það hlutskipti. Atvinnulífið hefur verið fjandsamlegt öryrkjum. Nauðsynlegt er að aðstoða sem flesta öryrkja við að komast út í atvinnulífið á ný. En til þess að svo geti orðið þurfa atvinnurekendur að vera jákvæðir gagnvart öryrkjum og þeim, sem misst hafa starfsorkuna að einhverju leyti. Æskilegt væri, að atvinnurekendur byðu öryrkjum hlutastörf. Það gildir það sama um öryrkja og eldri borgara: Lífeyrir almannatrygginga, sem öryrkjar fá, er of lágur og dugar ekki til framfærslu.

Margir hafa greitt til TR frá 16 ára aldri
Um áramótin 2016/2017, við lögfestingu nýrra laga um TR var grunnlífeyrir afnuminn. 4200 ellilífeyrisþegar voru þá strikaðir út úr kerfi almannatrygginga þó þeir hefðu greitt alla sína starfsævi til trygginganna, beint og óbeint. Margir eldri borgarar fóru að greiða til almannatrygginga 16 ára gamlir og hafa greitt til þeirra síðan með tryggingagjaldi og sköttum.
 
Björgvin Guðmundsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *