Ný námskeið í íslendingasögum og bókmenntum að hefjast.

Íslendingasögur/fornsögur
Föstudaginn 4. október hefst nýtt 10 vikna fornsagnanámskeið. Nú er það Brennu-Njáls saga sem verður lesin. Sagan er nokkuð löng og það er kannski dálítil bjartsýni að ætla sér að komast yfir slíkt stórvirki á tíu vikum, en sannarlega er það tilhlökkunarefni en eins og öllum er ljóst sem kynnt hafa sér Njálu er alltaf hægt að lesa hana einu sinni enn!
Leiðbeinandi: Baldur Hafstað
Uppbygging námskeiðs: Einu sinni í viku á föstudögum í 10 vikur. Hóparnir verða tveir, sá fyrri kl. 10–12 (einnig í boði í gegnum fjarfundarbúnaðinn ZOOM) og sá seinni kl. 12:30–14:30. Haustönn 2024 hefst föstudaginn 4. október 2024.
Verð: 22.500 kr.

Bókmenntahópur FEB
Á haustönn 2024 hittist bókmenntahópurinn þrisvar sinnum; 9. október, 30. október og 27. nóvember. Fyrsti tíminn er helgaður hinu vinsæla kveðskaparformi limrum en tveir síðari tímarnir bernskuminningum þriggja karla sem allir eru fæddir í kringum 1930. Bækurnar eru ólíkar en vöktu mikla athygli þegar þær komu út og fengu góða dóma. Þær draga upp mynd af mismunandi samfélögum og uppvaxtarskilyrðum barna í kreppunni á fjórða áratug síðustu aldar og fram undir miðja öldina.

  • 9. október: Limrur.
  • 30. október: Bernskudagar: minningar frá æsku og uppvexti (2013) eftir Óskar Jóhannsson kaupmann í Sunnubúðinni (1928–2024) og Svipþing: minningaþættir (1998) eftir Svein Skorra Höskuldsson bókmenntaprófessor (1930–2002).
  • 27. nóvember: Jarðlag í tímanum: minningamyndir úr æsku (2011) eftir Hannes Pétursson skáld (f. 1931).

Leiðbeinandi: Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir. Anna Þorbjörg er nýr leiðbeinandi hjá FEB en hún er með MA-próf í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands og er fyrrverandi lektor við Menntavísindasvið HÍ. Hún ritstýrði einnig heildarútgáfu á verkum skáldkonunnar Erlu, Guðfinnu Þorsteinsdóttur, sem kom út árið 2013 og skrifaði um hana bók.
Uppbygging námskeiðs: Þrjú skipti á miðvikudögum kl. 13:00-15:00 dagana 9. október, 30. október og 27. nóvember
Verð: 8.000 kr.

Nánari upplýsingar um námskeiðin er hægt að finna hér á heimasíðu FEB undir „Námskeið og klúbbar“ eða HÉR

Skráning fer fram á skrifstofu FEB, í gegnum síma 588 2111 eða með því að senda póst á netfangið feb@feb.is. Skráðu þig núna