Námskeið og klúbbar
Bókmenntahópur FEB
Boðið er upp á námskeið í ýmsum sögum.
Á haustönn 2025 hittist bókmenntahópurinn þrisvar sinnum, 24. september, 22. október og 26. nóvember. FEB hefur fengið til sín nýjan leiðbeinanda en það er Ragnhildur Richter (f. 1955) sem kenndi íslensku í Menntaskólanum við Hamrahlíð í 35 ár. Samhliða kenndi hún í Háskóla Íslands í nokkur ár og skrifaði fjórar kennslubækur í íslensku með tveimur vinnufélögum sínum.
Dagskrá bókmenntahópsins til áramóta:
24. september
Með minnið á heilanum eftir Þórhildi Ólafsdóttur. Bókin kom út í ár hjá Uglu og hefur mælst mjög vel fyrir.
Þórhildur skrifar um bernsku sína á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Hún segir að sig hafi langað til að „draga fram heiminn sem ég hafði átt sem barn, fólkið og staðinn sem ég ólst upp á, Syðri-Ánastaði á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Upphaflega kveikjan var því sú að mig langaði til að gera þetta skýrara fyrir sjálfri mér.“
Þórhildur var dósent í frönsku við Háskóla Íslands í nokkur ár en starfaði við Evrópuráðið í Strassborg í Frakklandi í aldarfjórðung.
22. október
Formaður húsfélagsins eftir Friðgeir Einarsson. Bókin kom út hjá Benedikt bókaútgáfu árið 2017.
Á bókarkápu stendur: „Formaður húsfélagsins fjallar um sambýli ókunnugra, nauðsynlegt viðhald fasteigna og margslungið tilfinningalíf íbúa fjölbýlishúsa.“ Bókin er vel skrifuð og fyndin. Hún fjallar um samskipti fólks sem þarf að koma sér saman um fyrirkomulag sambýlis í fjölbýlishúsi og ýmislegt sem kemur uppá í því sambýli. Gaman er að túlka efnið í ýmsar áttir.
26. nóvember
DJ Bambi eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Bókin kom út hjá Benedikt bókaútgáfu árið 2023.
Auður Ava er löngu þekkt fyrir ritstörf sín. Hún fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 2016.
Á Bókmenntavef Borgarbókasafnsins segir um DJ Bamba:
Bambi er 61 árs gömul trans kona sem vann áður sem plötusnúður en er í dag sérfræðingur í smæstu byggingareiningum mannslíkamans, frumum.
Falleg saga og sérlega vel skrifuð. Hún fjallar um samtíma okkar á skilningsríkan og næman hátt og hvetur okkur til að skoða mannlífið frá nýju sjónarhorni.
Leiðbeinandi: Ragnhildur Richter
Uppbygging námskeiðs: Þrjú skipti á miðvikudögum kl. 13:00-15:00 dagana 24. september, 22. október og 26. nóvember.
Verð: 8.000 kr.
Íslendingasögur
Fornsagnanámskeið þar sem teknar eru fyrir mismunandi Íslendinga- og/eða fornaldarsögur.
Á haustönn 2025 er Kormáks saga á dagskrá og líklega verður Hallfreðar saga tekin fyrir síðustu 4 vikur annarinnar, en önnin hefst föstudaginn 19. september 2025.
Kormáks saga er ein af okkar elstu Íslendingasögum (frá því snemma á 13. öld) og hefur haft nokkur áhrif á þær sögur sem síðar voru skráðar. Rauði þráðurinn í sögunni er ást skáldsins Kormáks til hinnar „handfögru og vitru“ Steingerðar. Fremur lítið fer þó fyrir ástarsælu. Sagan gerist að mestu í Miðfirði og nágrenni en leiðir þeirra beggja liggja síðan til Noregs (á tímum Haralds gráfeldar) og allt til Bjarmalands. Í síðustu vísu Kormáks, sem ort er á Skotlandi, er hugur hans enn hjá Steingerði.
Það gefst svigrúm til að lesa aðra sögu síðustu fjórar vikurnar, og líklega verður Hallfreðar saga vandræðaskálds (um 60 síður) fyrir valinu . Báðar þessar sögur eru svokallaðar skáldasögur og eiga það sameiginlegt að greina frá ást skálds til giftrar konu.
Leiðbeinandi: Baldur Hafstað
Uppbygging námskeiðs: Einu sinni í viku á föstudögum í 10 vikur hvert námskeið. Hóparnir verða tveir, sá fyrri kl. 10–12 (einnig í boði í gegnum fjarfundarbúnaðinn ZOOM) og sá seinni kl. 12:30–14:30.
Haustönn 2025 hefst föstudaginn 19. september 2025 (síðasti tími annarinnar er á áætlun föstudaginn 21. nóvember)
Verð: 23.000 kr.
Matarklúbbur FEB fyrir karlmenn 60+
Langar þig í matarklúbb með öðrum körlum?
Langar þig að læra að elda einfaldan mat?
Hefur þú lítið stuðningsnet og/eða ert óvanur að elda?
Eða langar þig bara að koma og vera með?
Þú þarft ekki að hafa reynslu af matseld til að taka þátt, bara að langa til að elda og/eða að læra að elda og að borða í góðum félagsskap.
Leiðbeinandi: Er i vinnslu.
Uppbygging námskeiðs: Einu sinni í viku í nokkrar vikur hvert námskeið. Í vinnslu er hvenær námskeiðið byrjar
Verð: kemur síðar
Myndlistarnámskeið
Mánudaginn 22. september hefst að nýju almennt grunnnámskeið í myndlist sem Bjarni Daníelsson kennir. Þessi námskeið hafa notið mikilla vinsælda.
Tilgangur námskeiðsins er fyrst og fremst að auka færni og þor þátttakenda til að fást við myndlist sem gefandi frístundaiðju. Fjallað er um skynjun og skoðun, skilning og sköpun sem samofna þætti í því að iðka myndlist og njóta hennar. Farið er í ýmis grundvallaratriði myndlistar, svo sem litafræði, fjarvídd, hlutföll mannslíkamans, formfræði tvívíddar og þrívíddar og myndbyggingu. Kynnt verður mismunandi tækni, efni og áhöld og rætt um stefnur og strauma í listasögunni eftir því sem við á.
Þátttakendur leysa margs konar verkefni í tímunum og áhersla er lögð á samræður og skoðanaskipti. Auk verkefna í tímum er reiknað með að þátttakendur vinni heimaverkefni milli kennslustunda og heimsæki söfn og sýningar meðan á námskeiðinu stendur. Til að námskeiðið skili tilætluðum árangri er mjög mikilvægt að þátttakendur geti bæði mætt í tímana og sinnt heimaverkefnum.
Kennari: Bjarni Daníelsson myndlistarkennari.
Efni og áhöld: Góð skissubók í stærð A4 og einföld teikniáhöld (blýantar og einhverjir litir). Frekari efniskaup eftir fyrsta tíma í samráði við kennara
Uppbygging námskeiðs: Einu sinni í viku á mánudögum í 3 klst. í senn (frá kl. 13 – 16) í 10 vikur. Fyrsti tími á haustönn 2025 er mánudaginn 22. september.
Verð: 43.000 kr.
Skákfélagið Æsir
Teflt er einu sinni í viku nær alla mánuði ársins á þriðjudögum kl. 13:00. Mjög góður hópur iðkar taflmennsku hér hjá FEB og er klúbburinn virtur á meðal skákmanna.
Formaður: Garðar Guðmundsson
Spænskunámskeið (fyrir byrjendur og lengra komna)
Spænskukennsla þar sem farið er yfir framburð og nokkur undirstöðuatriði í málfræði. Aðaláherslan verður á talað mál og orðaforða. Námskeiðunum verður skipt upp í þrjá hópa:
– Spænska 1 er ætluð byrjendum
– Spænska 2 er ætluð þeim sem eitthvað eru komnir af stað
– Spænska 3 er ætluð þeim sem lengra eru komnir og því freistandi að hafa kennsluna að öllu leyti á spænsku – eða eins mikið á spænsku hægt er.
Leiðbeinandi: Kristinn R. Ólafsson
Uppbygging námskeiðs: tvisvar sinnum í viku í 8 vikur hvert námskeið. Fyrstu námskeiðin á haustönn 2025 hefjast mánudaginn 20. október 2025.
Verð: 32.000 kr.
