Námskeið og klúbbar

Bókmenntahópur
Boðið er upp á námskeið í ýmsum sögum. Höfundur viðkomandi verks er oft fenginn til að ræða verk sitt við hópinn.
Á haustönn 2022 verða lesnar tvær sögur eftir Hallgrím Helgason: Sextíu kíló af sólskini og Sextíu kíló af kjaftshöggum.
Sögusviðið er Siglufjörður og fjallað er um mikla umbrotatíma í íslenskri sögu við næst síðustu aldamót. Norðmenn koma með nýja atvinnuhætti, síldarævintýrið í uppsiglingu og timbur kemur í stað torfs í lífi þjóðar. Við lesum um uppbyggingu smáþorps, ástir og örlög, fátækt og leið til skárra lífs og allt þetta reiðir Hallgrímur fram af mikilli sagnalist. – Það er mikið efni til umræðna í þessum sögum.
Leiðbeinandi: Jónína Guðmundsdóttir
Uppbygging námskeiðs: Þrjú skipti í senn, á fimmtudögum kl. 13:00-15:00 dagana 22. september, 20. október og 24. nóvember.
Verð: 4.500 kr.

Enskunámskeið (fyrir byrjendur og lengra komna)
Enskukennsla með áherslu á talað mál. Lagt er upp með að námið sé hagnýtt og að fólk nái að bjarga sér á spjalli við enskumælandi fólk, fremur en verið sé að læra flókna málfræði. Námsgögn innifalin í verði.
Leiðbeinandi: Margrét Sölvadóttir
Uppbygging námskeiðs: tvisvar sinnum í viku í 4 vikur hvert námskeið. Kennt verður í tveimur lotum í haust þ.e. í sept. og nóv.
Verð: 14.000 kr.

Íslendingasögur
Fornsagnanámskeið þar sem teknar eru fyrir mismunandi Íslendinga- og/eða fornaldarsögur.
Á haustönn 2022 eru tvær sögur á dagskrá, Færeyinga saga og Svínfellinga saga.
Færeyinga saga er örlagasaga þeirra Þrándar í Götu og Sigmundar Brestissonar, en þeim fyrrnefnda hefur verið líkt við sjálfan Snorra Sturluson. Ólafur Halldórsson hefur manna mest og best rannsakað þessa stórmerkilegu sögu.
Svínfellinga saga greinir frá deilum Ormssona á Svínafelli og Ögmundar Helgasonar í Kirkjubæ á árunum 1248–1252. Þar skyggnumst við inn í hina blóðugu Sturlungaöld undir lok þjóðveldisins þar sem nánir ættingjar berast á banaspjót.
Leiðbeinandi: Baldur Hafstað
Uppbygging námskeiðs: Einu sinni í viku á föstudögum í 10 vikur hvert námskeið. Hóparnir verða tveir, sá fyrri kl. 10–12 (einnig í boði í gegnum fjarfundarbúnaðinn ZOOM) og sá seinni kl. 12:30–14:30. Haustönn hefst 16. september.
Verð: 20.000 kr.

Ljóðahópur
Þar leiðir Jónína hópinn og velur efni í samstarfi við aðra þátttakendur.
Leiðbeinandi: Jónína Guðmundsdóttir
Uppbygging námskeiðs: Fyrsta og þriðja fimmtudag í hverjum mánuði í þrjá mánuði í senn.

Skákfélagið Æsir
Teflt er einu sinni í viku nær alla mánuði ársins á þriðjudögum kl. 13:00. Mjög góður hópur iðkar taflmennsku hér hjá FEB og er klúbburinn virtur á meðal skákmanna.
Formaður: Garðar Guðmundsson

Spænskunámskeið (fyrir byrjendur og lengra komna)
Spænskukennsla þar sem farið er yfir framburð og nokkur undirstöðuatriði í málfræði. Aðaláherslan verður á talað mál og orðaforða. Námskeiðunum verður skipt upp í þrjá hópa:
– Spænska 1 er ætluð byrjendum
– Spænska 2 er ætluð þeim sem eitthvað eru komnir af stað
– Spænska 3 er ætluð þeim sem lengra eru komnir og því freistandi að hafa kennsluna að öllu leyti á spænsku – eða eins mikið á spænsku hægt er.
Leiðbeinandi: Kristinn R. Ólafsson
Uppbygging námskeiðs: tvisvar sinnum í viku í 5 vikur hvert námskeið.
Verð: 20.000 kr.
Tímasetning: Námskeiðin hefjast 10. janúar 2022.