Námskeið og klúbbar

Bókmenntahópur FEB: Grandvör
Boðið er upp á námskeið í ýmsum sögum. Höfundur viðkomandi verks er oft fenginn til að ræða verk sitt við hópinn.
Á vorönn 2024 hittist bókmenntahópurinn fjórum sinnum og les og ræðir fimm bækur sem allar eru mjög athyglisverðar, hver með sínu móti.
Fyrstu tveir tímarnir eru ætlaðir fyrir þrjár bækur eftir Jón Kalman Stefánsson. Þetta eru hans fyrstu skáldsögur; sveitasöguþríleikur sem gerist á áttunda áratugnum á ónefndum stað á Vesturlandi. Til samans mynda bækurnar sterkan sagnaheim sem haldið er saman af sögumanni, sögusviði og frásagnaraðferð. Bækurnar eru:
1. Skurðir í rígningu
2. Sumarið bakvið Brekkuna
3. Birtan á fjöllunum
Fjórða bókin sem lesin verður, er eftir Stefán Jónsson: Að breyta fjalli. Þetta eru endurminningar höfundar frá Djúpavogi og Húsavík. Fremur spes endurminningabók. Lífleg og skemmtileg.
Síðastur fer Thor Vilhjálmsson: Raddir í garðinum. Þetta er einnig endurminningabók um ættir hans og uppruna.
Leiðbeinandi: Jónína Guðmundsdóttir
Uppbygging námskeiðs: Fjögur skipi á miðvikudögum kl. 13:00-15:00 dagana 24. janúar, 14. febrúar, 6. mars og 10. apríl 2024.
Verð: 6.000 kr. 

Enskunámskeið (fyrir byrjendur og lengra komna)
Enskukennsla með áherslu á talað mál. Lagt er upp með að námið sé hagnýtt og að fólk nái að bjarga sér á spjalli við enskumælandi fólk, fremur en verið sé að læra flókna málfræði. Námsgögn innifalin í verði.
Leiðbeinandi: Margrét Sölvadóttir
Uppbygging námskeiðs: tvisvar sinnum í viku í 4 vikur hvert námskeið. Nýtt námskeið ekki tímasett.
Verð: 14.000 kr.

Íslendingasögur
Fornsagnanámskeið þar sem teknar eru fyrir mismunandi Íslendinga- og/eða fornaldarsögur.
Á vorönn 2024 verður  Egils saga tekin fyrir. Það er tilhlökkunarefni að lesa þessa stórbrotnu sögu með áhugasömu fólki enda er hún löngu orðin hluti af lífi okkar. Það er ekki aðeins Egill sem heillar, heldur öll hans skyldmenni í fjóra ættliði, konur og karlar. Gunnhildur drottning kemur einnig mjög við sögu og reyndar norska konungsættin öll. Sagan er hæfilega löng fyrir þetta námskeið, en nauðsynlegt verður að lesa allan textann og gefa kveðskapnum einnig gaum þó ekki verði farið yfir hverja vísu. Eftir kaffihlé mun gefast tími til skoðanaskipta enda má búast við að mikil þekking leynist í hópnum.
Leiðbeinandi: Baldur Hafstað
Uppbygging námskeiðs: Einu sinni í viku á föstudögum í 10 vikur hvert námskeið. Hóparnir verða tveir, sá fyrri kl. 10–12 (einnig í boði í gegnum fjarfundarbúnaðinn ZOOM) og sá seinni kl. 12:30–14:30. Vorönn 2024 hefst 12. janúar 2024.
Verð: 22.500 kr.

Ljóðahópur
Þar leiðir Jónína hópinn og velur efni í samstarfi við aðra þátttakendur.
Leiðbeinandi: Jónína Guðmundsdóttir
Uppbygging námskeiðs: Tvisvar sinnum í mánuði á  fimmtudögum í þrjá mánuði í senn. Sjá nánari dagsetningar í Viðburðadagatali.
Verð: 4.000 kr.

Matarklúbbur FEB fyrir karlmenn 60+
Langar þig í matarklúbb með öðrum körlum?
Langar þig að læra að elda einfaldan mat?
Hefur þú lítið stuðningsnet og/eða ert óvanur að elda?
Eða langar þig bara að koma og vera með?
Þú þarft ekki að hafa reynslu af matseld til að taka þátt, bara að langa til að elda og/eða að læra að elda og að borða í góðum félagsskap. Leiðbeinandi er Kristján E. Guðmundsson sem er áhugakokkur á sama reki og þú og hefur ánægju af að elda og leiðbeina öðrum.
Uppbygging námskeiðs: Einu sinni í viku á mánudögum kl. 16:30 – 19:00 í 7 vikur hvert námskeið.
Verð: 9.000 kr.

Myndlistarnámskeið
Almennt byrjendanámskeið í myndlist fyrir eldra fólk. Tilgangur námskeiðsins er fyrst og fremst að auka færni og þor þátttakenda til að fást við myndlist sem gefandi frístundaiðju.
Fjallað verður um skynjun og skoðun, skilning og sköpun sem samofna þætti í myndlistariðkun. Farið verður í nokkur grundvallaratriði myndgerðar, svo sem litafræði, myndbyggingu, fjarvídd, hlutföll mannslíkamans og formfræði tvívíddar og þrívíddar. Kynnt verður mismunandi tækni og rætt um hefðir og stefnur með vísan í listfræði og sögu eftir því sem við á. Þátttakendur leysa ýmis verkefni með skissubók og einföldum áhöldum svo sem blýanti, litblýöntum olíukrít og vatnslitum. Áhersla er lögð á samræður og skoðanaskipti í tímum.
Auk verkefna í tímum er reiknað með að þátttakendur vinni heimaverkefni milli kennslustunda og heimsæki söfn og sýningar meðan á námskeiðinu stendur.
Kennari: Bjarni Daníelsson
Efni og áhöld: Stór og góð skissubók, A4 eða stærri. Einföld teikniáhöld og litir að eigin vali (frekari efniskaup í samráði við kennara)
Uppbygging námskeiðs: Einu sinni í viku á mánudögum í 3 klst. í senn (frá kl. 13 – 16) í 10 vikur. Fyrsti tími á vorönn er mánudaginn 15. janúar 2024.
Verð: 43.000 kr.

Skákfélagið Æsir
Teflt er einu sinni í viku nær alla mánuði ársins á þriðjudögum kl. 13:00. Mjög góður hópur iðkar taflmennsku hér hjá FEB og er klúbburinn virtur á meðal skákmanna.
Formaður: Garðar Guðmundsson

Spænskunámskeið (fyrir byrjendur og lengra komna)
Spænskukennsla þar sem farið er yfir framburð og nokkur undirstöðuatriði í málfræði. Aðaláherslan verður á talað mál og orðaforða. Námskeiðunum verður skipt upp í þrjá hópa:
– Spænska 1 er ætluð byrjendum
– Spænska 2 er ætluð þeim sem eitthvað eru komnir af stað
– Spænska 3 er ætluð þeim sem lengra eru komnir og því freistandi að hafa kennsluna að öllu leyti á spænsku – eða eins mikið á spænsku hægt er.
Leiðbeinandi: Kristinn R. Ólafsson
Uppbygging námskeiðs: tvisvar sinnum í viku í 6 vikur hvert námskeið. Fyrsta námskeiðið á vorönn 2024 hefst mánudaginn 15. janúar.
Verð: 24.000.