Námskeið og klúbbar

Bókmenntahópur
Boðið er upp á námskeið í ýmsum sögum. Höfundur viðkomandi verks er oft fenginn til að ræða verk sitt við hópinn.
Bjargræði eftir Hermann Stefánsson er lesefni bókmenntaklúbbsins á vorönn 2023.
Látra-Björg (1716-1784) er aðaðpersóna þessarar sögu. Hún var hörkukelling sem sótti sjó og tók á móti börnum, orti fleygar vísur og lagðist í flakk. Hún er ein af fáum konum frá 18. öld sem urðu nafnkunnar en margt það sem konur ortu þá og rituðu hefur glatast. Þetta er frumleg skáldsaga sem gerist í nútímanum og er lögð Björgu í munn.
Leiðbeinandi: Jónína Guðmundsdóttir
Uppbygging námskeiðs: Þrjú skipti í senn, en ath nú á miðvikudögum kl. 13:00-15:00 dagana 25. janúar, 22. febrúar og 22. mars (jafnvel verður fjórða tímanum bætt við, þann 19. apríl ef vilji stendur til)
Verð: 4.500 kr. (6.000 ef tímar verða fjórir)

Enskunámskeið (fyrir byrjendur og lengra komna)
Enskukennsla með áherslu á talað mál. Lagt er upp með að námið sé hagnýtt og að fólk nái að bjarga sér á spjalli við enskumælandi fólk, fremur en verið sé að læra flókna málfræði. Námsgögn innifalin í verði.
Leiðbeinandi: Margrét Sölvadóttir
Uppbygging námskeiðs: tvisvar sinnum í viku í 4 vikur hvert námskeið. Ný námskeið hefjast 6. febrúar 2023
Verð: 14.000 kr.

Íslendingasögur
Fornsagnanámskeið þar sem teknar eru fyrir mismunandi Íslendinga- og/eða fornaldarsögur.
Á vorönn 2023 verður Jómsvíkinga saga tekin fyrir en að henni lokinni verður lesin stutt og heillandi saga eða sögubrot, þar sem söugsviðið er gamla góða Ísland!
Jómsvíkinga saga er skemmtileg og afar athyglisverð að mörgu leyti. Hún er eldri en elstu Íslendingasögur og hefur haft mikil áhrif á þær og nægir þar að benda á sjálfa Egils sögu en einnig yngri Íslendingasögur. Kunnugleg minni koma fram (heitstrengingar, viðureign við forynjur, gerningaveður o.s.frv.); og þarna birtast góðkunningjar íslenskra kappa: jarlar og konungar að ógleymdri hinni vergjörnu Gunnhildi drottningu og konungamóður.
Fjallað er um erjur náinna ættingja í konungsfjölskyldu Dana og deilur danskra og norskra þjóðhöfðingja. Inn í þessar deilur flækjast hinir frægu Jómsvíkingar (af dönskum ættum) sem stofna víkingaborg við sunnanvert Eystrasalt. Hámarki nær sagan í bardaganum í Hjörungavogi árið 986 þar sem Jómsvíkingar sýna fádæma hreysti og kjark.
Leiðbeinandi: Baldur Hafstað
Uppbygging námskeiðs: Einu sinni í viku á föstudögum í 10 vikur hvert námskeið. Hóparnir verða tveir, sá fyrri kl. 10–12 (einnig í boði í gegnum fjarfundarbúnaðinn ZOOM) og sá seinni kl. 12:30–14:30. Vorönn hefst 20. janúar.
Verð: 20.000 kr.

Ljóðahópur
Þar leiðir Jónína hópinn og velur efni í samstarfi við aðra þátttakendur.
Leiðbeinandi: Jónína Guðmundsdóttir
Uppbygging námskeiðs: Tvisvar sinnum í mánuði á  fimmtudögum í þrjá mánuði í senn. Sjá nánari dagsetningar í Viðburðadagatali.

Skákfélagið Æsir
Teflt er einu sinni í viku nær alla mánuði ársins á þriðjudögum kl. 13:00. Mjög góður hópur iðkar taflmennsku hér hjá FEB og er klúbburinn virtur á meðal skákmanna.
Formaður: Garðar Guðmundsson

Spænskunámskeið (fyrir byrjendur og lengra komna)
Spænskukennsla þar sem farið er yfir framburð og nokkur undirstöðuatriði í málfræði. Aðaláherslan verður á talað mál og orðaforða. Námskeiðunum verður skipt upp í þrjá hópa:
– Spænska 1 er ætluð byrjendum
– Spænska 2 er ætluð þeim sem eitthvað eru komnir af stað
– Spænska 3 er ætluð þeim sem lengra eru komnir og því freistandi að hafa kennsluna að öllu leyti á spænsku – eða eins mikið á spænsku hægt er.
Leiðbeinandi: Kristinn R. Ólafsson
Uppbygging námskeiðs: tvisvar sinnum í viku í 5 vikur hvert námskeið.
Verð: 20.000 kr.
Tímasetning: Námskeið ársins 2023 hefjast 16. janúar .