Fjárlögin og lífeyrir almannatrygginga

Eftir Finn Birgisson, arkitekt á eftirlaunum
Það er ómótmælanleg staðreynd að grunnupphæðir lífeyrisgreiðslna frá TR hafa verið að dragast aftur úr launaþróun á undanförnum árum. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að í 69. grein almannatryggingarlaga sé kveðið á um að taka skuli mið af launaþróun við árlegar ákvarðanir um breytingar á grunnupphæðum almannatrygginga. Meðfylgjandi myndir sýna þetta misgengi svo ekki verður um villst.

Ellilífeyririnn, sem er mikilvægasta stærðin sem snýr að öldruðum í þessu dæmi, hefur farið á 10 árum úr því að vera sem svarar 91,5% af lágmarkslaunum niður í 75% á þessu ári, sbr. mynd 1. Einungis milli 2016 og 2017 leitaði hann örlítið uppávið, en svo seig aftur á ógæfuhliðina. Og því miður lítur út fyrir að ríkisstjórnin ætli að láta þessa niðurkeyrslu halda áfram, ef marka má fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021.

Í frumvarpinu er að finna nokkrar mismunandi prósentutölur um áætlaðar launahækkanir 2021: Á blaðsíðu 121 segir að áætlað sé að „almennar launahækkanir á árinu 2021 verði um 3,6% að jafnaði.“ Þar til viðbótar komi hækkanir vegna breytinga á orlofsréttindum, þannig að hækkun launakostnaðar verði um 4%. Eins og kunnugt er eru gildandi launasamningar þannig útbúnir, að lægstu launin hækka mest, þannig að ef þessi spá reynist raunsæ, þá munu lægstu launin hækka meira en þetta meðaltal. Og ekki nóg með það, hér er verið að tala um strípaðar taxtahækkanir, sem þýðir að launavísitalan og launin munu í raun hækka talsvert meira. Þetta kemur líka fram í frumvarpinu sjálfu, því að í töflu yfir launa- og verðlagsforsendur frumvarpsins á bls. 331 segir að forsendurnar séu m.a. að vísitala neysluverðs muni hækka um 2,7% og laun um 5,2%.

En niðurstaða frumvarpsins um hækkun upphæða hjá almannatryggingum er að þær skuli aðeins hækka um 3,6%. Höfundar frumvarpsins hafa sem sagt gripið upp lægstu hækkunarprósentuna sem þeir gátu fundið í þessum potti – áætlaðar meðal-taxtahækkanir milli áranna 2020 og 2021. Ef þetta nær fram að ganga mun kjaragliðnun undanfarinna ára halda áfram að aukast, og kjör lífeyristaka, sem háðir eru greiðslum TR um afkomu sína, dragast enn lengra aftur úr kjörum annarra landsmanna.

Brýtur Alþingi eigin lög?
Á mynd 1 sést glöggt að á árabilinu 2010-2020 hefur ellilífeyririnn verið að dragast jafnt og þétt aftur úr lágmarkslaununum. Hér að framan hefur einnig verið rakið, að ef fjárlagafrumvarpið nær fram að ganga muni ekki verða lát á þeirri þróun á komandi ári. Þetta gerist þrátt fyrir ákvæði 69. gr. almannatryggingarlaganna um að skylt sé að taka mið af launaþróuninni.

Ef til vill munu einhverjir segja sem svo, að ekki sé að marka að bera saman við lágmarkslaunin, því þau hegði sér á annan hátt en launavísitalan sem mælir öll laun. Með greininni fylgir því annað línurit, mynd 2, sem ber þróun ellilífeyrisins saman við bæði þróun launavísitölu og lægstu launa. Niðurstaðan er sú sama og fyrr: Lægstu launin hafa reyndar farið ívið hraðar upp en launavísitalan, en ellilífeyririnn hefur dregist jafnt og þétt aftur úr bæði launavísitölu og lægstu launum.

Skyldi einhver treysta sér til að halda því fram að þetta sé til vitnis um að farið hafi verið eftir 69. greininni við ákvarðanir um hækkanir lífeyrisins milli ára – ákvarðanir sem Alþingi tekur sjálft með afgreiðslu fjárlaga hvers árs?

(Skýringar á myndum: Þær eru byggðar á talnaefni frá Hagstofu Íslands um launavísitölu og frá Tryggingastofnun um lægstu laun og upphæðir ellilífeyris. Á mynd 2 eru launavísitalan og „vísitala“ lægstu launa báðar umreiknaðar niður í 100 fyrir árið 2010. Það ár var ellilífeyririnn 91,5% af lægstu launum, sbr. mynd 1, og er kúrva hans látin byrja í þeirri prósentu.)

Hverju munar hjá öldruðum og öryrkjum?
Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir misgenginu sem orðið er milli upphæða almannatrygginga og launaþróunar í landinu. Ef einhver skyldi halda að þetta snúist um eitthvert smáræði eða minniháttar ónákvæmni, þá er það meinlegur misskilningur. Þetta snýst um háar upphæðir sem skipta sköpum fyrir þá sem eiga allt sitt undir greiðslum almannatrygginga.

Í krónutölum lítur þetta svona út:
• Árið 2010 var ellilífeyririnn 153.500 kr. á mánuði, en í ár er hann 256.800 kr.
• Ef hann hefði hækkað eins og launavísitalan væri hann núna 297.600 kr. eða 40.800 kr. hærri.
• Ef hann hefði hækkað eins og lægstu laun væri hann núna 313.500 kr. eða heilum 56.700 kr. hærri!

– Það munar um minna en slíkar upphæðir hjá fólki sem hefur ekki annað til að lifa af en þessar greiðslur frá TR.

Á næsta ári verður kosið til Alþingis og er ekki að vita nema þær kosningar geti orðið sögulegar á ýmsan hátt. Sennilega liggur eina vonin til þess að ráðamenn taki nú til við að vinda ofan af þeirri óheillaþróun í lífeyrismálunum sem hér hefur verið lýst, í því að öldruðum og öryrkjum takist að sannfæra þá um að þeir muni hljóta verra af í komandi kosningum ef þeir bæta ekki ráð sitt þegar þeir á næstunni afgreiða fjárlög ársins 2021.