InnanlaNdsferðir
Hinar einu og sönnu FEB-innanlandsferðir árið 2025.
FEB-ferðir efna til fjölbreyttra ferða víða um land í sumar eins og endranær. Meðal nýjunga innanlands er gönguferð frá Ölkelduhálsi yfir í Grafning (Kattartjarnaleið) og styttri gönguferðir ekki langt frá höfuðborginni undir leiðsögn Jónatans Garðarssonar. Vinsælustu ferðir síðustu ára verða einnig á sínum stað, eins og ferðina í Fjörður, Flateyjardal og Tröllaskaga, Fjallabaksleið nyrðri, Kerlingarfjöll og Hveravellir, svo eitthvað sé nefnt.
MAÍ
Söguferðir um Njáluslóðir (14. og 21. maí – dagsferðir)
Tvær dagsferðir á Njáluslóðir í framhaldi af fornsagnanámskeiði FEB í vetur þar sem Brennu-Njáls saga var tekin fyrir. Farið verður á mikilvæga og valda staði Njálu. Hádegisverður verður snæddur á Hótel Fljótshlíð í Smáratúni og áður en haldið verður til Reykjavíkur verður stoppað á Hvolsvelli til að fá kaffi og pönnsur.
Fararstjórar: Baldur Hafstað og Einar Jónsson
Verð: 19.500 kr. (2.500 kr. bætast við ef þátttakandi er utanfélagsmaður)
JÚNÍ
Vestmannaeyjar (3. júní – dagsferð)
Dagsferð til Vestmannaeyja. Ekið sem leið liggur austur fyrir Fjall og í Landeyjahöfn, þar sem Herjólfur bíður okkar, og ferjar bæði rútu og hópinn yfir til Eyja. Þar byrjum við á að aka út á Eiðið áður en við fáum hádegisverð á Tanganum. Maturinn er innifalinn í verði ferðar. Eftir hádegi liggur leiðin m.a. inn í Herjólfsdal út á Stórhöfða, um „nýja hraunið“og Skansinn, áður en við förum í Eldheima og kynnum okkur afleiðingar Heimaeyjargossins í janúar 1973. Þaðan fer svo hópurinn aftur um borð í Herjólf og ekur síðan til Reykjavíkur .
Leiðsögumenn: Kári Jónasson og Gerður G. Sigurðardóttir.
Erfiðleikastig: 1 skór
Verð: 23.500 kr. (2.500 kr. bætast við ef þátttakandi er utanfélagsmaður)
Snæfellsnes og út í Flatey (20. til 21. júní – tveggja daga ferð)
Ekið frá Stangarhyl í Reykjavík klukkan 9 sem leið liggur upp í Borgarnes þar sem verður stutt viðdvöl. Síðan liggur leiðin að Ytri- Tungu á Snæfellsnesi, en þar má oft sjá seli. Farið að Arnarstapa og gengið þar um. Hádegishressing. Ekið fyrir Jökul og að Hellissandi, áfram um Ólafsvík og Grundarfjörð til Stykkishólms, þar sem gist verður á Hótel Stykkishólmi og borðað. Daginn eftir er svo siglt með ferjunni Baldri út i Flatey, þar verður gengið um þorpið með kunnugum og kíkt á fuglalífið. Siglt til baka með ferjunni um hádegisbil. Hádegishressing og skoðunarferð í Stykkishólmi áður en haldið er suður til Reykjavíkur.
Leiðsögumaður: Kári Jónasson
Erfiðleikastig: 2 skór
Verð: 78.500 kr. á mann m.v. gistingu í tveggja manna herbergi en 95.000 kr. ef gist er í einbýli
(5.000 kr. bætast við ef þátttakandi er utanfélagsmaður)
Gönguferð um Sogin og næsta nágrenni (25. júní – hluti úr degi)
Ekið er út á Strandaheiði og beygt til hægri til að komast á afleggjarann að Keili. Frá Höskuldarvöllum til hægri í áttina að borplani. Gengið þaðan að Sogaselsgígnum, en þar eru tóftir nokkurra selja frá Vatnsleysuströnd. Haldið er áfram inn í Sogin, gamalt háhitasvæði sem er að mestu útkulnað. Farið í áttina að Spákonuvötnum. Gengið er í hlíðum Grænavatnseggja og annaðhvort farið að Grænavatni eða haldið enn vestar að Selsvöllum. Þar eru grasi grónir vellir. Þegar dvalið hefur verið þar um stund er haldið til baka að bílunum. Í þessari ferð er smá bratti á köflum og frekar fjölbreytt gróðurlítið landslag með fornum eldgígum og móbergshnúkum.
Tímalengd: 3-4 tímar.
Leiðsögumaður: Jónatan Garðarsson.
Erfiðleikastig: 2 skór
Búnaður: Góðir gönguskór, göngufatnaður og stafir. Hver og einn þarf að koma með sitt nesti og drykki.
Verð: 3.500 kr. (2.500 kr. bætast við ef þátttakandi er utanfélagsmaður)
Vestfirði (29. júní til 1. júlí – þriggja daga ferð)
Þriggja daga ferð. Lagt af stað akandi úr Reykjavík klukkan 9, sem leið liggur um Borgarfjörð og Dali. Komið við á Sauðfjársetrinu á Ströndum þar sem hópurinn fær hádegishressingu og skoðar sýninguna sem tengd er sauðfjárbúskap, mannlífi og menningu á Ströndum. Þaðan er ekið yfir Steingrímsfjarðarheiði og um Ísafjarðardjúp. Komið við á áhugaverðum stöðum á leiðinni til Ísafjarðar og gist í tvær nætur á Hótel Ísafirði. Daginn eftir er siglt út í Vigur og litast þar um áður en haldið er á ný til Ísafjarðar. Síðan skoðar hópurinn sig um á Ísafirði, áður en sest er að snæðingi i Tjöruhúsinu. Daginn eftir er svo haldið suður á leið. Fyrsti viðkomustaður er Flateyri, síðan Þingeyri og svo Dynjandi. Þaðan förum við svo yfir Dynjandisheiði og fáum hádegishressingu í Flókalundi. Leiðin liggur svo fyrir fjarðabotnana og um umtalaðan veg í Teigsskógi, aftur um Dalina og suður til Reykjavíkur.
Leiðsögumaður: Eiríkur Hreinn Helgason
Erfiðleikastig: 2 skór
Verð: 128.000 kr. á mann m.v. gistingu í tveggja manna herbergi en 154.500 kr. ef gist er í einbýli
(5.000 kr. bætast við ef þátttakandi er utanfélagsmaður)
JÚLÍ
Fjallabaksleið nyrðri (9. júlí – dagsferð)
Enn á ný efnir FEB til dagsferðar um Fjallabaksleið nyrðri með brottför klukkan 8:30 úr Stangarhyl . Eins og áður er fyrsti viðkomustaður í Þjórsárdal. Þaðan verður ekið rakleiðis inn í Landmannalaugar, þar sem gestir taka upp nesti sitt og skoða sig um. Þá verður haldið um Jökuldali og Eldgjá í Hólaskjól. Síðan verður ekið niður Skaftártungu og um Vík . Kvöldmatur, sem er innifalinn í verði, bíður ferðalanga áður en haldið verður til Reykjavíkur. Um nokkuð langa ferð er að ræða og ekið um hálendisvegi yfir ár og læki. Þetta er ekki mikil gönguferð en þátttakendur þurfa að vera vel búnir fyrir hálendisferð.
Leiðsögumaður: Kári Jónasson
Erfiðleikastig: 1 skór
Verð: 25.000 kr. (2.500 kr. bætast við ef þátttakandi er utanfélagsmaður)
Njáluslóðir Suðurland (16. júlí – dagsferð)
Dagsferð þar sem Guðni Ágústsson leiðir okkur á slóðir Hallgerðar Langbrókar og Njálsbrennu. Fyrsti viðkomustaður er Selfoss og svo næst Laugardælakirkja austan við Selfoss. Þar verður sagt frá Bobby Fischer. Þaðan verður haldið að Odda á Rangárvöllum, áður en komið er í Hótel Fljótshlíð í Smáratúni, þar sem litast verður um og snædd kjötsúpa. Ekið að Hlíðarenda og yfir í Gunnarshólma þar sem Gunnar sneri aftur. Þá liggur leiðin suður að Bergþórshvoli þaðan á Hvolsvöll í kaffi og pönnsur áður en haldið verður til Reykjavíkur.
Fararstjóri: Guðni Ágústsson
Verð: 19.500 kr. (2.500 kr. bætast við ef þátttakandi er utanfélagsmaður)
ÁGÚST
Kerlingarfjöll og Hveravellir (15. til 16. ágúst – tveggja daga ferð)
Seinni hálendisferðin í ár er í Kerlingarfjöll og inn á Hveravelli dagana 15. og 16. ágúst. Lagt af stað úr Stangarhyl klukkan 9 að morgni og ekið sem leið liggur að Gullfossi og þaðan inn að Hveravöllum. Gengið um hverasvæðið, og kíkt m.a. á dvalarstað Eyvindar og Höllu, frægasta útilegufólks Íslandssögunnar. Síðan er haldið í Kerlingarfjöll þar sem snæddur verður kvöldverður og gist eina nótt. Daginn eftir er farið í gönguferð um Hveradali þar sem við blasir mikil litadýrð og bullandi hverir. Þátttakendur þurfa að vera vel útbúnir til gönguferða og vanir göngu í umhverfi sem þessu. Þarna er gengið upp og niður göngustíga sem hafa verið lagðir á undanförnum árum. Eftir hádegishressingur verður haldið suður á bóginn á ný með viðkomu á Geysi.
Leiðsögumaður: Jónas Valdimarsson
Erfiðleikastig: 3 skór
Verð: 87.000 kr. á mann m.v. gistingu í tveggja manna herbergi, en þau eru eingöngu eru í boði í þessari ferð.
(5.000 kr. bætist við ef þátttakandi er utanfélagsmaður)
Ferð í Fjörður, Flateyjardal og Tröllaskaga (21. til 24. ágúst – fjögurra daga ferð)
Ferðin hefst og endar í Reykjavík, tekur fjóra daga, þrjár nætur í gistingu á Akureyri nánar tiltekið á hótel Kjarnalundi. Ferðast er í rútu allan tímann og farið á fjallabílum yfir í Fjörður. Fyrsta daginn er ekið frá Reykjavík til Akureyrar. Á öðrum degi er haldið út í Fjörður (Hvalvatnsfjörð) um Leirdalsheiði á vel útbúnum fjallabílum. Á þriðja degi er ekið norður Flateyjardalsheiði allt út á Flateyjardal. Á fjórða og síðasta degi er ekið aftur til Reykjavíkur en um Eyjafjörð að vestan, gegnum Dalvík og Ólafsfjörð, stoppað verður á Siglufirði en síðan ekið suður á ný um Þverárfjall og þjóðveg 1.
Leiðsögumaður: Gísli Jónatansson
Erfiðleikastig: 2 skór
Verð: 153.000 kr. á mann m.v. gistingu í tveggja manna herbergi en 179.000 kr. ef gist er í einbýli
(5.000 kr. bætast við ef þátttakandi er utanfélagsmaður)
Ganga frá Ölkelduháls yfir í Grafning – Kattartjarnaleið (vika 34. (í ágúst) – dagsferð)
Framundan er skemmtileg ganga um hina svokölluðu Kattartjarnaleið. Rútan skutlar okkur að upphafsstað sem er Ölkelduháls og sækir okkur á áfangastað. Frá Ölkelduhálsi er gengið framhjá fallegu hverasvæði á hálsinum og þaðan norður fyrir Ölkelduhálshnúk og neðan við Tjarnarhnúk og þar er staldrað við á útsýnisstað. Þaðan er gengið meðfram Álftatjörn og síðan tekinn örlítill krókur til að kíkja á Kattartjarnirnar tvær. Þá er komið að hinu stórkostlega Tindgili. Þegar komið er niður úr gilinu er skammt eftir að Ölfusvatnsánni og við fylgjum henni niður að endastað.
Um er að ræða um 12,5 km langa göngu þar sem byrjað er á hæsta punkti með lækkun smám saman alla gönguna. Undirlagið er fjölbreytt en ekki grýtt að ráði. Þetta eru mest eins og breiðir kindastígar sem fylgja landslaginu. Gangan sjálf tekur ca 6 klst með stoppum.
Ferðin verður farin virkan dag í viku 34 en veðurspáin fyrir eða um helgina í byrjun þeirrar viku verður látin ráða nákvæmum degi.
Útbúnaður: Góðir gönguskór eða utanvegahlaupaskór, góður útivistarfatnaður og göngustafir. Einnig þarf að hafa með nesti og drykki til að nærast meðan á göngunni stendur.
Leiðsögumaður: Einar Skúlason
Erfiðleikastig: 3 skór
Verð: 18.500 kr. (2.500 kr. bætast við ef þátttakandi er utanfélagsmaður)
Agnes og Friðrik (28. til 29. ágúst – tveggja daga ferð)
Enn á ný efnum við til ferðar á slóðir Agnesar og Friðriks í Húnaþingi. Bók Magnúsar Ólafssonar um atburðina á Illugastöðum og Þrístöpum og þar í kring, varð kveikjan að þessari ferð að nýju. Ekið verður sem leið liggur norður yfir heiðar og komið við á Selasetrinu á Hvammstanga. Síðan haldið Vatnsneshringinn með viðkomu á ýmsum stöðum s.s. Illugastöðum, við Hvítserk og Borgarvirki. Haldið að Laugarlandi , þar sem hópurinn gistir. Þar kemur Magnús Ólafsson fyrrverandi bóndi á Sveinsstöðum og sagnaþulur til móts við hópinn og leiðir okkur í allan sannleikann um síðustu aftökuna á Íslandi, þeirra Agnesar og Friðriks, og fer daginn eftir með hópnum að Þrístöpum og um Vatnsdal. Þá verður haldið í kirkjuna á Þingeyrum og síðan að Kolugljúfrum í Víðidal, áður en farið verður aftur heim á leið.
Leiðsögumaður: Kári Jónasson
Erfiðleikastig: 1 skór
Verð: 69.000 kr. á mann m.v. gistingu í tveggja manna herbergi en 78.500 kr. ef gist er í einbýli
(5.000 kr. bætast við ef þátttakandi er utanfélagsmaður)
SEPTEMBER
Gönguferð í Fornasel og Gjásel – haustlitaferð (18. sept. – hluti úr degi)
Ekið á einkabílum eftir Krýsuvíkurvegi rétt upp fyrir iðnaðarhverfið sem þar er að rísa, þar til komið er að malarnámu rétt við rallýkrossbrautina, þar sem gangan hefst. Þar er annaðhvort hægt að velja að ganga gamla Hrauntungustíginn og er þá fyrst farið í gegnum námasvæðið, eða fara aðeins sunnar og ganga eftir ruddum slóða í gegnum Nýjahraun (rann 1151-1180). Farið er að Fjárborginni og síðan um fjárslóða á skógræktarsvæðinu í áttina að Fornaseli. Eftir það er gengið í áttina að Gjáseli. Þegar þangað er komið er staldrað við, og halda til baka að bílunum.
Tímalengd: 3-4 tímar.
Leiðsögumaður: Jónatan Garðarsson.
Erfiðleikastig: 2 skór
Búnaður: Góðir gönguskór, göngufatnaður og stafir. Hver og einn þarf að koma með sitt nesti og drykki.
Verð: 3.500 kr. (2.500 kr. bætast við ef þátttakandi er utanfélagsmaður)
Flokkun ferða:
Flokkun ferða, er frá einum skó upp í þrjá skó. Flokkun ferða er einungis til viðmiðunar. Ófyrirsjáanlegar ytri aðstæður, eins og breytingar í veðri, geta breytt erfiðleikastigi ferðar.
Einn skór: Létt ganga, ekki mjög gróft yfirborð. Engar, eða litlar ár. Flestum fært sem ekki nota göngugrind eða hjólastól. Léttur dagpoki.
Tveir skór: Þátttakendur þurfa að vera í nokkuð góðri gönguþjálfun. Göngutími getur verið allt að 3-6 klst. Landslag getur verið hæðótt og nokkuð gróft. Léttur dagpoki. Mælt með göngustöfum.
Þrír skór: Þátttakendur þufa að vera í góðri gönguþjálfun. Nokkuð langar gönguleiðir (6-8 klst.). Gönguleið getur verið í fjalllendi, þar sem yfirborð getur verið grýtt og litlar ár. Léttur dagpoki. Göngustafir eru nauðsynlegir.
Bókanir í ferðirnar hefjast miðvikudaginn 19. mars kl. 10:00 og fara fram á skrifstofu FEB og í gegnum síma 588 2111. Eftir kl. 10:00 þann 19. mars er einnig hægt að senda póst á netfangið feb@feb.is til að bóka sig – til að gæta samræmis er póstur fyrir þann tíma ekki tekinn gildur.
Athugið :
Félagið áskilur sér rétt til að fella niður einstakar ferðir vegna veðurs, ónógrar þátttöku eða af öðrum ástæðum.
Verð geta breyst m.v. breyttar forsendur þegar líða tekur á sumarið.