InnanlaNdsferðir

Dagsferð á Suðurnesin – FEB ferðir „klappaðar upp“
Vegna mikillar eftirspurnar ætlum við að bæta við einni FEB ferð nú í september. Um er að ræða dagsferð á Suðurnesin fimmtudaginn 17. sept., með hádegismat í Duushúsi í Keflavík. Lagt er að stað frá Stangarhyl kl. 9:00 og reiknað með að koma til baka um kl. 18:00. Í leiðsögninni verður fléttað saman sögu þeirra svæða sem um er farið, ásamt lýsingu á mannlífi og persónusögu í bland við jarðfræði svæðisins.
Æskilegt er að þátttakendur hafi með sér nestisbita til neyslu síðdegis.
Leiðsögumaður: Magnús Sædal Svavarsson
Verð: 14.000 kr (15.000 fyrir utanfélagsmenn)

Nánari lýsing á ferðinni:
Frá Stangarhyl verður ekið um Reykjanesbraut að kapellunni í Kapelluhrauni og hún skoðuð. Þaðan ekið um Hraunin að Kálfastrandarkirkju á Vatnleysuströnd. Kirkjan skoðuð. Ekið um Vatnleysuströnd í Voga og þorpið kynnt. Síðan ekið eftir Reykjanesbraut til Innri- Njarðvíkur og staldrað við kirkjuna þar sem sagan verður rifjuð upp. Frá Innri Njarðvík ekið um Fitjar til Ytri- Njarðvíkur og því þorpi gerð skil. Þá liggur leiðin til Keflavíkur. Gamli bærinn litinn augum og komið að Duushúsum þar sem snæddur er hádegisverður. Að loknum hádegisverði er haldið að Helguvík og uppbygging þar skoðuð. Þá liggur leiðin um Leiru út í Garð og að Garðskagaflös. Ferðinni er síðan haldið áfram um Miðnes að Sandgerði um Hvalsnes, Bátsenda, Þórshöfn í Ósabotna og Hafnir. En þetta svæði er þrungið sögu og náttúru. Frá Höfnum er ekið að Reykjanestá með viðkomu í landreksgjánni og eftir stopp við Valahnúk er komið að Gunnuhver. Þaðan er haldið með suðurströndinni um Staðarhverfi til Grindavíkur, en frá Grindavík liggur leiðin til Reykjavíkur.
Endilega stökktu á tækifærið, það hefur verið mikil gleði með allar ferðirnar okkar í sumar.

Söguferð: Dalir – Snæfellsnes, 9. og 12. júní
Um er að ræða dagsferðir á söguslóðir Laxdælu í tengslum við Íslendingasagnanámskeiðið.
Á áætlun er að fara 9. og 12. júní kl. 08:00 frá Stangarhyl 4.
Verð 12.000 kr fyrir félagsmenn og kr. 13.000 fyrir utanfélagsmenn.
Fararstjórar Baldur Hafstað og Magnús Sædal

Á slóðir Agnesar og Friðriks í Húnaþingi. 14.-15.júní
Tveggja daga ferð með gistingu eina nótt á Laugarbakka. Brottför kl 9:00 frá Stangarhyl 4, þann 14. júní. Ekið sem leið liggur norður yfir heiðar og komið við í Selasetrinu á Hvammstanga. Síðan haldið Vatnsneshringinn með viðkomu á ýmsum stöðum s.s. Illugastöðum, við Hvítserk og Borgarvirki. Haldið að Hótel Laugarbakka, þar sem hópurinn gistir. Síðari daginn kemur Magnús Ólafsson fyrrverandi bóndi á Sveinsstöðum og sagnaþulur og leiðir okkur í allan sannleikann um síðustu aftökuna á Íslandi, þeirra Agnesar og Friðriks, og fer með hópnum að Þrístöpum og um Vatnsdal. Þá verður haldið í kirkjuna á Þingeyrum og síðan að Kolugljúfrum í Víðidal, áður en farið verður aftur suður.
Innifalið í verði er gisting, kvöldverður og morgunverður ásamt hádegishressingu báða dagana.
Verð 38.500 kr. fyrir félagsmenn og 39.500 kr. fyrir utanfélagsmenn.
Leiðsögumaður er Kári Jónasson

Vestmannaeyjar 20. júní
Dagsferð til Vestmannaeyja. Brottför klukkan 8:00 frá Stangarhyl 4, þann 20. júní. Ekið sem leið liggur austur fyrir fjall og í Landeyjahöfn, þar sem Herjólfur bíður okkar og ferjar bæði rútu og hópinn yfir til Eyja. Þar byrjum við á að aka inn í Herjólfsdal, áður en við fáum hádegisverð á Tanganum. Maturinn er innifalinn í verði ferðar. Eftir hádegi liggur leiðin m.a. út á Stórhöfða, um „nýja hraunið“ og Skansinn, áður en við förum í Eldheima og kynnum okkur afleiðingar Heimaeyjar-gossins í janúar 1973.
Þaðan fer svo hópurinn aftur um borð í Herjólf og kemur til Reykjavíkur um áttaleitið ef allar áætlanir standast.
Verð 17.500 kr fyrir félagsmenn og 18.500 kr utanfélagsmenn.
Leiðsögumenn Kári Jónasson og Gerður G. Sigurðardóttir

Fjallabaksleið nyrðri, Landmannalaugar og Vík. dags. 6. ágúst. – FELLD NIÐUR
Enn á ný efnir FEB til dagsferðar um Fjallabaksleið nyrðri, og eins og áður er fyrsti viðkomustaður Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal. Þaðan verður ekið rakleiðis inn í Landmannalaugar, þar sem gestir taka upp nesti sitt og skoða sig um. Þá verður haldið um Jökuldali og Eldgjá í Hólaskjól. Síðan verður ekið niður Skaftártungur og til Víkur þar sem kvöldmatur ,sem er innifalinn í verði, bíður ferðalanga áður en haldið verður til Reykjavíkur.
Þetta er nokkuð löng ferð og ekið um hálendisvegi yfir ár og læki.
Verð 18.500 kr fyrir félagsmenn en 19.500 kr fyrir utanfélagsmenn. Brottför frá Stangarhyl 4, klukkan 8:30 þann 6. ágúst.
Leiðsögumaður Kári Jónasson

Ferð um Sprengisand í Fjörðu, Flateyjardal og Tröllaskaga. 9.-12. ágúst – FELLD NIÐUR
Fjögra daga ferð þar sem gist verður þrjár nætur á Hótel Eddu, Akureyri. Brottför klukkan 8:00 þann 9. ágúst frá Stangarhyl 4.
Þessi ferð fyllist alltaf fljótt!
Við leggjum enn einu sinni land undir fót og hyggjum á viðburðaríka ferð í ágústbyrjun undir stjórn Gísla Jónatanssonar. Ferðin hefst og endar í Reykjavík. Ekið er í rútu allan tímann (þó er farið á fjallabílum yfir í Fjörður). Ferðaskipulag er sem hér segir. Fyrsta daginn er ekið frá Reykjavík til Akureyrar um Sprengisand. Á öðrum degi er ekið norður Flateyjardalsheiði allt út á Flateyjardal. Á þriðja degi er haldið út í Fjörður (Hvalvatnsfjörð) um Leirdalsheiði (á vel útbúnum fjallabílum). Á fjórða og síðasta degi er ekið aftur til Reykjavíkur en um Eyjafjörð
að vestan, gegnum Dalvík og Ólafsfjörð, stoppað verður á Siglufirði en síðan ekið suður á ný um Þverárfjall og þjóðveg 1.
Verð kemur síðar.
Leiðsögumaður Gísli Jónatansson

Suðurströnd og austur í Öræfi. 28. – 29. ágúst.
Tveggja daga ferð með gistingu eina nótt á Smyrlabjörgum. Brottför kl 9:00 frá Stangarhyl 4, þann 28. ágúst.
Leið okkar liggur austur fyrir Fjall um Suðurland og alla leið í Öræfi og verður komið við á ýmsum stöðum á þeirri leið. Fyrst er komið við hjá Skógarfossi. Þaðan austur í Vík, yfir Mýrdalssand og í Öræfi. Förum að Fjallsárlóni og síðan Jökulsárlóni áður en við komum í næturstað á Hótel Smyrlabjörgum. Eftir morgunverð daginn eftir er fyrsti áfangastaður stórkúabúið í Flatey, og þaðan heimsækir hópurinn Þórbergssetur á Hala í Suðursveit. Á heimleið verður staldrað við í gestastofunum í Skaftafelli og á Klaustri, í Vík og við Seljalandsfoss. Þetta er tveggja daga ferð og innifalið er gisting og matur á Smyrlabjörgum, hádegishressing á heimleið daginn eftir og aðgangseyrir.
Verð kemur síðar.
Leiðsögumaður Kári Jónasson

Suðurland, Njáluslóðir 3. september
Dagsferð þar sem Guðni Ágústsson leiðir okkur á slóðir Hallgerðar Langbrókar og Njálsbrennu. Brottför frá Stangarhyl 4, klukkan 9:00 3. sept. Fyrsti viðkomustaður í Laugardælakirkju austan við Selfoss. Þar verður sagt frá Bobby Fischer. Þaðan verður haldið að Keldum og Odda á Rangárvöllum, áður en komið er í Njálusetur á Hvolsvelli, þar sem litast verður um og borin fram kjötsúpa. Síðan liggur leiðin inn í Fljótshlíð, að Hlíðarenda og yfir í Gunnarshólma þar sem Gunnar sneri aftur. Þá liggur leiðin suður að Bergþórshvoli áður en haldið verður í hellana á Ægissíðu
við Hellu á leið til Reykjavíkur.
Verð kemur síðar.
Fararstjóri Guðni Ágústsson

Athugið: Félagið áskilur sér rétt til að fella niður einstakar ferðir vegna ónógrar þátttöku eða af öðrum ástæðum.