InnanlaNdsferðir
Hinar einu og sönnu FEB-innanlandsferðir árið 2024
FEB-ferðir efna til fjölbreyttra ferða víða um land í sumar eins og endranær. Meðal nýjunga innanlands eru ferðir til Vestfjarða og um Snæfellsnes og út í Flatey á Breiðafirði. Þá verður aftur farið norður í Flateyjardal og Fjörður. Á stefnuskránni er að bæta við fleirum dagsferðum innanlands einhvern tímann í sumar eða haust og eru félagsmenn hvattir til að fylgjast vel með hér á heimasíðu FEB.
MAÍ
Söguferð um Mýrar og í Borgarfjörð (14. maí )
Dagsferð á slóðir Egils sögu í framhaldi af fornsagnanámskeiði FEB í vetur þar sem Egils saga var tekin fyrir. Farið verður um Mýrar og í Borgarfjörð og endað með kvöldverði í Landnámssetrinu.
Farastjórar: Baldur Hafstað og Anna Kristín Sigurðardóttir
Verð: 21.000 kr. (2.500 krónur bætast við ef farþegi er utanfélagsmaður).
Njáluslóðir Suðurland (23. maí)
Dagsferð þar sem Guðni Ágústsson leiðir okkur á slóðir Hallgerðar Langbrókar og Njálsbrennu. Fyrsti viðkomustaður er Selfoss og svo næst Laugardælakirkja austan við Selfoss. Þar verður sagt frá Bobby Fischer. Þaðan verður haldið að Odda á Rangárvöllum, áður en komið er í Hótel Fljótshlíð í Smáratúni, þar sem litast verður um og snædd kjötsúpa. Ekið að Hlíðarenda og yfir í Gunnarshólma þar sem Gunnar sneri aftur. Þá liggur leiðin suður að Bergþórshvoli og þaðan á Hvolsvöll í kaffi og pönnsur áður en haldið verður til Reykjavíkur.
Fararstjóri: Guðni Ágústsson
Verð: 19.000 kr. (2.500 krónur bætast við ef farþegi er utanfélagsmaður).
JÚNÍ
Vestmannaeyjar (4. júní ) – FERÐ FELLD NIÐUR VEGNA VEÐURS
Dagsferð til Vestmannaeyja. Ekið sem leið liggur austur fyrir Fjall og í Landeyjahöfn, þar sem Herjólfur bíður okkar, og ferjar bæði rútu og hópinn yfir til Eyja. Þar byrjum við á að aka út á Eiðið áður en við fáum hádegisverð á Tanganum. Maturinn er innifalinn í verði ferðar. Eftir hádegi liggur leiðin m.a. inn í Herjólfsdal út á Stórhöfða, um „nýja hraunið“ og Skansinn, áður en við förum í Eldheima og kynnum okkur afleiðingar Heimaeyjargossins í janúar 1973. Þaðan fer svo hópurinn aftur um borð í Herjólf og kemur til Reykjavíkur um áttaleitið ef allar áætlanir standast.
Leiðsögumenn: Kári Jónasson og Gerður G. Sigurðardóttir.
Verð: 22.000 kr. (2.500 krónur bætast við ef farþegi er utanfélagsmaður).
Vestfirði (7. til 9. Júní)
Þriggja daga ferð. Lagt af stað akandi úr Reykjavík klukkan 9, sem leið liggur um Borgarfjörð og Dali. Komið við á Sauðfjársetrinu á Ströndum þar sem hópurinn fær hádegishressingu og skoðar sýninguna sem tengd er sauðfjárbúskap, mannlífi og menningu á Ströndum. Þaðan er ekið yfir Steingrímsfjarðarheiði og um Ísafjarðardjúp. Komið við á áhugaverðum stöðum á leiðinni til Ísafjarðar og gist í tvær nætur á Hótel Ísafirði. Daginn eftir er siglt til Hesteyrar og litast þar um áður en haldið er á ný til Ísafjarðar. Síðan skoðar hópurinn sig um á Ísafirði, áður en sest er að snæðingi i Tjöruhúsinu. Daginn eftir er svo haldið suður á leið. Fyrsti viðkomustaður er Flateyri, síðan Þingeyri og svo Dynjandi. Þaðan förum við svo yfir Dynjandisheiði og fáum hádegishressingu í Flókalundi. Leiðin liggur svo fyrir fjarðabotnana og um umtalaðan veg í Teigsskógi og yfir nýju brúna í Þorskafirði, aftur um Dalina og suður til Reykjavíkur.
Leiðsögumaður: Kári Jónasson
Verð: 126.000 kr. á mann m.v. gistingu í 2 manna herbergi en 151.000 kr. ef gist er í einbýli (5.000 kr. bætast við ef farþegi er utanfélagsmaður).
Vestmannaeyjar (14. júní )
Dagsferð til Vestmannaeyja. Ekið sem leið liggur austur fyrir Fjall og í Landeyjahöfn, þar sem Herjólfur bíður okkar, og ferjar bæði rútu og hópinn yfir til Eyja. Þar byrjum við á að aka út á Eiðið áður en við fáum hádegisverð á Tanganum. Maturinn er innifalinn í verði ferðar. Eftir hádegi liggur leiðin m.a. inn í Herjólfsdal út á Stórhöfða, um „nýja hraunið“ og Skansinn, áður en við förum í Eldheima og kynnum okkur afleiðingar Heimaeyjargossins í janúar 1973. Þaðan fer svo hópurinn aftur um borð í Herjólf og kemur til Reykjavíkur um áttaleitið ef allar áætlanir standast.
Leiðsögumenn: Kári Jónasson og Gerður G. Sigurðardóttir.
Verð: 22.000 kr. (2.500 krónur bætast við ef farþegi er utanfélagsmaður).
Snæfellsnes og út í Flatey (27. til 28. júní )
Ekið frá Stangarhyl í Reykjavík klukkan 9 sem leið liggur upp í Borgarnes þar sem verður stutt viðdvöl. Síðan liggur leiðin að Ytri- Tungu á Snæfellsnesi, en þar má oft sjá seli. Farið að Arnarstapa og gengið þar um. Hádegishressing. Ekið fyrir Jökul og að Hellissandi, áfram um Ólafsvík og Grundarfjörð til Stykkishólms, þar sem gist verður á Hótel Stykkishólmi og borðað. Daginn eftir er svo siglt með ferjunni Baldri út i Flatey, þar verður gengið um þorpið með kunnugum og kíkt á fuglalífið. Siglt til baka með ferjunni um hádegisbil. Hádegishressing og skoðunarferð í Stykkishólmi áður en haldið er suður til Reykjavíkur.
Leiðsögumaður: Kári Jónasson
Verð: 75.000 kr. á mann m.v. gistingu í 2 manna herbergi en 90.700 kr. ef gist er í einbýli (5.000 kr. bætast við ef farþegi er utanfélagsmaður).
JÚLÍ
Fjallabaksleið nyrðri (4. júlí)
Enn á ný efnir FEB til dagsferðar um Fjallabaksleið nyrðri með brottför klukkan 8:30 úr Stangarhyl . Eins og áður er fyrsti viðkomustaður í Þjórsárdal. Þaðan verður ekið rakleiðis inn í Landmannalaugar, þar sem gestir taka upp nesti sitt og skoða sig um. Þá verður haldið um Jökuldali og Eldgjá í Hólaskjól. Síðan verður ekið niður Skaftártungu og um Vík . Kvöldmatur, sem er innifalinn í verði, bíður ferðalanga áður en haldið verður til Reykjavíkur. Um nokkuð langa ferð er að ræða og ekið um hálendisvegi yfir ár og læki. Þetta er ekki mikil gönguferð en þátttakendur þurfa að vera vel búnir fyrir hálendisferð.
Leiðsögumaður: Kári Jónasson
Verð: 24.000 kr. (2.500 krónur bætast við ef farþegi er utanfélagsmaður).
Njáluslóðir Suðurland (16. júlí)
Dagsferð þar sem Guðni Ágústsson leiðir okkur á slóðir Hallgerðar Langbrókar og Njálsbrennu. Fyrsti viðkomustaður er Selfoss og svo næst Laugardælakirkja austan við Selfoss. Þar verður sagt frá Bobby Fischer. Þaðan verður haldið að Odda á Rangárvöllum, áður en komið er í Hótel Fljótshlíð í Smáratúni, þar sem litast verður um og snædd kjötsúpa. Ekið að Hlíðarenda og yfir í Gunnarshólma þar sem Gunnar sneri aftur. Þá liggur leiðin suður að Bergþórshvoli þaðan á Hvolsvöll í kaffi og pönnsur áður en haldið verður til Reykjavíkur.
Fararstjóri: Guðni Ágústsson
Verð: 19.000 kr. (2.500 krónur bætast við ef farþegi er utanfélagsmaður).
ÁGÚST
Ferð í Fjörður, Flateyjardal og Tröllaskaga (13. til 16. ágúst)
Ferðin hefst og endar í Reykjavík, tekur fjóra daga, þrjár nætur í gistingu á Akureyri nánar tiltekið á hótel Kjarnalundi. Ferðast er í rútu allan tímann og farið á fjallabílum yfir í Fjörður. Fyrsta daginn er ekið frá Reykjavík til Akureyrar. Á öðrum degi er ekið norður Flateyjardalsheiði allt út á Flateyjardal. Á þriðja degi er haldið út í Fjörður (Hvalvatnsfjörð) um Leirdalsheiði á vel útbúnum fjallabílum. Á fjórða og síðasta degi er ekið aftur til Reykjavíkur en um Eyjafjörð að vestan, gegnum Dalvík og Ólafsfjörð, stoppað verður á Siglufirði en síðan ekið suður á ný um Þverárfjall og þjóðveg 1.
Leiðsögumaður: Gísli Jónatansson
Verð: 149.000 kr. á mann m.v. gistingu í 2 manna herbergi en 174.500 kr. ef gist er í einbýli (5.000 kr. bætast við ef farþegi er utanfélagsmaður).
Suðurland (21. ágúst)
Lagt af stað úr Stangarhyl og ekið austur um Þrengslin til Hellu þar sem hellarnir við Ægissíðu verða heimsóttir. Í hellunum má t.d. finna stórmerka krossa, gamlar veggjaristur, myndir, syllur og innhöggvin sæti. Þá verður ekið til Flúða þar sem boðið verður upp á gómsæta sveppasúpu með heimabökuðu brauði. Flúðasveppir verða heimsóttir og við fáum kynningu á ræktuninni. Nú liggur leiðin til Skálholts sem er einn mesti sögustaður Íslands og biskupssetur síðan 1056. Þaðan verður ferðinni heitið að Laugarvatni þar sem við fáum kynningu á hverabrauðsgerð, rúgbrauðssneið með reyktum silungi og kaffi verður að sjálfsögðu í boði. Ekið um Lyngdalsheiði og stoppað á Þingvöllum ef tími vinnst til, áður en haldið verður til baka til Reykjavíkur.
Fararstjóri: Valdimar Bragason
Verð: 24.000 kr. (2.500 krónur bætast við ef farþegi er utanfélagsmaður).
Kerlingarfjöll og Hveravellir (27. til 28. ágúst)
Hálendisferðin í ár líkt og í fyrra, verður í Kerlingarfjöll og inn á Hveravelli dagana 27. og 28. ágúst. Lagt af stað úr Stangarhyl klukkan 9 að morgni og ekið sem leið liggur að Gullfossi og þaðan í Kerlingarfjöll þar sem gist verður eina nótt. Farið í gönguferð um Hveradali þar sem við blasir mikil litadýrð og bullandi hverir. Þátttakendur þurfa að vera vel útbúnir til gönguferða og vanir göngu í umhverfi sem þessu. Þarna er gengið upp og niður göngustíga sem hafa verið lagðir á undanförnum árum. Daginn eftir liggur leiðin inn að Hveravöllum, gengið um hverasvæðið, og kíkt m.a á dvalarstað Eyvindar og Höllu, frægasta útilegufólks Íslandssögunnar. Síðan verður haldið suður á bóginn á ný með viðkomu á Geysi.
Leiðsögumaður: Kári Jónasson
Verð: 74.000 kr. á mann m.v. gistingu í 2 manna herbergi (5.000 kr. bætast við ef farþegi er utanfélagsmaður).
SEPTEMBER
Söguferð um Mýrar og í Borgarfjörð (3. sept. )
Dagsferð á slóðir Egils sögu í framhaldi af fornsagnanámskeiði FEB í vetur þar sem Egils saga var tekin fyrir. Farið verður um Mýrar og í Borgarfjörð og endað með kvöldverði í Landnámssetrinu.
Farastjórar: Baldur Hafstað og Anna Kristín Sigurðardóttir
Verð: 21.000 kr. (2.500 krónur bætast við ef farþegi er utanfélagsmaður).
Njáluslóðir Suðurland (18. sept.)
Dagsferð þar sem Guðni Ágústsson leiðir okkur á slóðir Hallgerðar Langbrókar og Njálsbrennu. Fyrsti viðkomustaður er Selfoss og svo næst Laugardælakirkja austan við Selfoss. Þar verður sagt frá Bobby Fischer. Þaðan verður haldið að Odda á Rangárvöllum, áður en komið er í Hótel Fljótshlíð í Smáratúni, þar sem litast verður um og snædd kjötsúpa. Ekið að Hlíðarenda og yfir í Gunnarshólma þar sem Gunnar sneri aftur. Þá liggur leiðin suður að Bergþórshvoli og þaðan á Hvolsvöll í kaffi og pönnsur áður en haldið verður til Reykjavíkur.
Fararstjóri: Guðni Ágústsson
Verð: 19.000 kr. (2.500 krónur bætast við ef farþegi er utanfélagsmaður).
Upplýsingar um skráningar í ferðirnar eru veittar á skrifstofu FEB, í gegnum síma 588 2111 eða með því að senda póst á netfangið feb@feb.is
Athugið :
Félagið áskilur sér rétt til að fella niður einstakar ferðir vegna veðurs, ónógrar þátttöku eða af öðrum ástæðum.
Verð geta breyst m.v. breyttar forsendur þegar líða tekur á sumarið.