Hagsmunamál

Kjarabaráttan er alltaf í brennidepli, enda mjög mikilvægt að fylgjast vel með hagsmunum eldra fólks þegar á eftirlaun er komið. Og alltaf þokast eitthvað áleiðis til góðs fyrir allt eldra fólk. Stærra félag yrði sterkara og áhrifameira í hagsmunagæslunni. Það er því hagur allra eldri borgara að gerast félagi – og styrkja baráttuna.

Hér flipunum að ofan er annars vegar að finna baráttumál og kröfur félagsins til ríkis og Reykjavíkurborgar, sem samþykktar hafa verið á aðalfundum FEB undanfarin ár og hins vegar tengla inn á ýmis lög og reglugerðir sem snúa að málefnum aldraðra í víðum skilningi.

Hér er samþykkt aðalfundar 2019

Samþykkt aðalfundar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni um skerðingu almannatrygginga

Aðalfundur FEB 19. febrúar 2019 fagnar framkominni kröfu stéttarfélaga og sambanda innan ASÍ um að stigið verði ákveðið skref til lækkunar á skerðingu almannatrygginga úr 45% í 30% vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum. Sú óréttláta skerðing sem viðgengst í dag á sér ekkert fordæmi í þeim löndum sem við berum okkur saman við og stuðlar að fátækt meðal eldri borgara og rýrir traust á lífeyrissjóðum.

Einnig leggur fundurinn áherslu á að tryggður verði jöfnuður milli lífeyrisþega gagnvart almannatryggingum, vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum sem tilkominn er vegna skylduiðgjalds, hvort sem lífeyrir kemur úr samtryggingu eða séreign.

Fundurinn leggur allt traust sitt á að ASÍ fylgi kröfunni fast eftir í viðræðum við stjórnvöld og ekki verði hvikað frá henni fyrr en ásættanleg niðurstaða fæst.
Hér eru ályktanir aðalfundar 2017

Tannlækningar eldri borga
Af gefnu tilefni viljum við gefa heilbrigðisráðuneytinu tækifæri á að greiða sem allra fyrst þá skuld sem ráðneytið skuldar eldri borgurum vegna ákvæða í reglugerð um tannlækningar frá 2013. Skuldin var talin nema 800 milljónum s.l. haust. Það staðfesti þáverandi heilbrigðisráðherra í viðtali við fjölmiðla þann 13. september s.l. þar sem hann sagði að verið væri að reikna skuldina út og vinna stæði yfir í ráðuneytinu við það verkefni.
Fram hefur komið að 23.000 eldri borgarar hafi greitt of mikið vegna tannlæknaþjónustu.
Óskað er eftir viðtölum við stjórnvöld um málið sem allra fyrst og áður en skuldin verður sett í lögfræðilega innheimtu.

Heilbrigðismál
Sú alvarlega staða er nú uppi að hjúkrunarheimilispláss fyrir aldrað veikt fólk eru allt of fá. Fólk bíður og bíður á Landspítalanum og einnig í heimahúsum. Það bjargast með dagþjálfun eða með því að ættingjar taka að sér umönnun þess.
Bygging hjúkrunarheimila hefur setið á hakanum í alltof langan tíma og nú þegar loks hillir undir eitt hjúkrunarheimili er öllum ljóst að biðin er enn tvö ár a.m.k.
Það er því áskorun til heilbrigðisráherra að finna lausn á fráflæðisvanda Landspítalans og efla enn frekar stuðning með dagþjálfun og hvíldarinnlögnum.
Það er ekki mannsæmandi að fólk með fullt heilsu- og færnimat liggi á göngum sjúkrahúsa vikum saman. Á þeim tíma falla margir frá án þess að fá lausn sinna mála.
Í Reykjavík á að opna 100 rými á næstunni en biðin er þungbær og þeir sem bíða þarfnast mikils stuðnings og þeirra fjölskyldur. Brýnt er að leysa þann vanda hratt.